Innlent

Milljarðar í súginn vegna aðgerðaleysis

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og núverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og núverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Tekjutap ríkisins og sveitarfélaga vegna skattsvika hafa verið 44 til 60 milljarðar árið 2008, sé tekið mið af ástandinu 2004 til 2005. Þá kom fram í skýrslu nefndar um skattsvik að tekjutap hins opinbera vegna skattsvika væri 8,5 til 11,5 prósent af heildarskatttekjum. Séu skatttekjur árin 2006 og 2007 skoðaðar einnig má gera ráð fyrir undan­-skoti upp á nálægt 200 milljarða síðan skýrslan kom út.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og núverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir í litlu hafa verið farið eftir tillögum nefndarinnar, en auk hans voru í henni þeir Snorri Olsen, tollstjóri í Reykjavík, sem var formaður, og Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi skattrannsóknastjóri.

Í skýrslunni sagði að breyttar aðstæður í atvinnu- og viðskiptalífi hefðu skapað ný tækifæri til skattsvika. Því leggi nefndin til ýmsar breytingar á lögum til að „koma í veg fyrir að skattalög verði sniðgengin með því að íslenskir skattaðilar nýti sér skattaparadísir og ýmis konar lágskattasvæði til að koma undan tekjum sem sæta eiga skattlagningu hér á landi. Þá þarf að styrkja upplýsingaöflun skattyfirvalda í þessu tilliti".

Indriði segir ljóst að þróunin hafi verið þannig síðustu ár að undanskot til skattaskjóla hafi aukist frekar en hitt. Því megi segja að aðgerðaleysi stjórnvalda hafi orðið til þess að menn hafi gengið á lagið og skattsvik af þessu tagi aukist.

„Hefði verið farið eftir tillögunum værum við að horfast í augu við mun betri stöðu skattayfirvalda til að kanna málin og aðgangur að upplýsingum væri mun betri. Ég er því ekki í vafa um að staðan væri allt önnur."

Fyrir þinginu liggur frumvarp um breytingar á skattalögum og segir Indriði að þar komi fram ýmsar tillögur nefndarinnar, til dæmis um að upplýsingastreymi verði aukið, íslensk móðurfélög veiti upplýsingar um erlend dóttur-félög og CFC-löggjöf, sem kemur í veg fyrir óeðlilegan innflutning skatta frá einu ríki til annars.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar að tekið yrði af festu á skattaskjólum og skattsvikum og nefndi skýrsluna í því sambandi.

kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×