Íslenski boltinn

Heimir: Úrslitin gefa ekki rétta mynd af leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Vilhelm

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, segir að 5-1 sigur sinna manna gefi ekki rétta mynd af leiknum gegn Stjörnunni í Kaplakrika í dag.

„Nei, það fannst mér ekki. Við vorum örlítið ofan á í fyrri hálfleik þar sem við sköpuðum okkur fleiri færi en þeir. Við náðum svo að komast í 2-0 snemma í síðari hálfleik en gerðum svo smá mistök sem þeir nýttu sér. En sem betur fer náðum við að klára leikinn."

„Stjarnan er gríðarlega vel skipulagt og gott lið. Það er ekki að ástæðulausu að þeir eru búnir að vinna fyrstu þrjá leiki sína. Þetta var því erfiður leikur fyrir okkur og var ég aldrei í rónni með þetta."

FH skoraði fyrsta markið í leiknum og er það í fyrsta sinn í vor sem það gerist. „Það var kominn tími á það," sagði Heimir léttur í bragði.

Athygli vakti að þeir Matthías Guðmundsson og Tryggvi Guðmundsson voru settir á bekkinn í dag. Í þeirra stað komu þeir Björn Daníel Sverrisson og Tommy Nielsen inn í liðið.

„Mér fannst þeir sem komu inn á móti Breiðabliki og hjálpuðu okkur að vinna þann leik eiga skilið að fá tækifærið í dag. Þeir stóðu sig vel."

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson og Guðmundur Sævarsson meiddust lítillega í dag og þurftu að fara af velli. Heimir á þó ekki von á því að þeir verði lengi frá og býst við þeim klárum í næsta leik.

„Það er gott að vera með breiðan hóp enda margir leikir á skömmum tíma nú. Freyr Bjarnason er kominn aftur á stað og því góðar líkur á að allir nema Dennis (Siim) verði heilir fyrir næsta leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×