Íslenski boltinn

Bjarni ósáttur við rauða spjaldið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Anton

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki ánægður með rauða spjaldið sem Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður liðsins, fékk að líta gegn FH í dag.

Bjarni Þórður fékk rautt um miðbik síðari hálfleiksins fyrir að brjóta á Atla Guðnasyni sem var sloppinn framhjá honum. Víti var dæmt og gerðu FH-ingar út um leikinn með því að komast í 3-1 forystu. FH vann leikinn að lokum með fimm mörkum gegn einu.

„Það er rauða spjaldið og vítið sem kálar leiknum fyrir okkur," sagði Bjarni. „Við vorum ágætlega inn í leiknum og í stöðunni 2-1 fannst mér þetta líta ágætlega út fyrir okkur. Ég vil ekki meina að Bjarni hefði átt að fá rautt þar sem það voru komnir varnarmenn inn fyrir hann þegar brotið átti sér stað. Það verður gaman að sjá það í sjónvarpinu hvort ég hef rétt fyrir mér."

Hann var einnig ósáttur við önnur atriði í dómgæslu Jóhannesar Valgeirssonar.

„Til dæmis þegar Steinþór Freyr sleppur inn fyrir í fyrri hálfleiknum. Tommy (Nielsen) slæmir hendinni í öxlina og hann missir jafnvægið. Svona gamlir refir fá greinilega forgjöf."

Hann hafði annars engar áhyggjur af því að tapið hafi slæm áhrif á sína menn. „Það sáu það allir hér í dag að við erum í fínu lagi. Við erum búnir að koma öllum á óvart. Auðvitað var það sárt að tapa svona stórt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×