Íslenski boltinn

Umfjöllun: FH skoraði fimm gegn Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Viðar Björnsson, leikmaður FH, átti góðan leik í dag.
Atli Viðar Björnsson, leikmaður FH, átti góðan leik í dag. Mynd/Valli
FH gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk gegn lánlausum Stjörnumönnum á heimavelli sínum í dag. Lokatölur 5-1 og Íslandsmeistararnir þar með þeir fyrstu sem vinna sigur á Stjörnunni nú í vor.

Atli Viðar Björnsson var fyrstur til að skora fyrir FH-inga en hans mark kom í fyrri hálfleik. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson bætti við öðru marki snemma í síðari hálfleik en stuttu síðar náði Hafsteinn Rúnar Helgason að minnka muninn fyrir Stjörnuna.

Vendipunktur leiksins var á um miðbik síðari hálfleiksins er Bjarna Þórði Halldórssyni, markverði Stjörnunnar, var vikið af velli með rautt spjald fyrir að brjóta á Atla Guðnasyni sem var sloppinn framhjá honum. Víti var dæmt sem Davíð Þór Viðarsson skoraði úr.

Mörkin hefðu getað orðið fleiri en fimm en varamaðurinn Alexander Söderlund skoraði tvívegis á lokamínútum leiksins og innsiglaði þar með góðan sigur Hafnfirðinga.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og fékk Steinþór Freyr Þorsteinsson fyrsta hættulega færið er hann átti skot að marki en Daði Lárusson, markvörður FH, varði í horn. Stjörnumenn voru hættulegastir í föstum leikatriðum voru nokkrum sinnum nálægt því að skapa verulega hættu við mark heimamanna.

FH-ingar voru þó meira með boltann og áttu nokkrar góðar sóknir. Atli Viðar fékk gott skotfæri á átjándu mínútu en skaut yfir markið.

Sjö mínútum síðar brást honum hins vegar ekki bogalistin. Vörn Stjörnunnar lét taka sig í bólinu og átti Björn Daníel sverrisson stungusendingu inn á Atla Viðar sem náði að lauma knettinum í fjærhornið.

Stuttu síðar fékk Steinþór Freyr gott tækifæri til að jafna leikinn er hann slapp einn inn fyrir. Hann náði að koma boltanum yfir Daða markvörð en missti hann þá of langt frá sér og varnarmenn FH að hreinsa frá marki.

FH-ingar tóku svo öll völd á vellinum síðasta stundarfjórðunginn. Stjörnumenn lágu mjög aftarlega á vellinum en virtust engu að síður eiga í miklum vandræðum með sóknarmenn FH. Fyrst komst Atli Viðar í frábært skotfæri eftir góðan undirbúning Hjartar Loga Valgarðssonar en skot Atla Viðars var framhjá.

Á lokamínútu hálfleiksins komst svo Atli Guðnason í góða stöðu eftir sendingu Matthíasar Vilhjálmssonar og átti hann fast skot að marki. Bjarni Þórður Halldórsson varði hins vegar glæsilega frá honum.

Það er óhætt að segja að síðari hálfleikur hafi verið fjörlegur. Hann hófst með því að Ásgeir Gunnar kom FH í 2-0 með ágætu skoti eftir góðan undirbúning Atla Viðars. Í næstu sókn Stjörnunnar átti Þorvaldur Árnason skalla að marki sem Daði varði vel í horn.

En upp úr horninu kom eina mark Stjörnunnar í leiknum. Hafsteinn Rúnar tók hornspyrnuna sem beygði inn að marki FH. Daði misreiknaði sig og sló boltann í markið þegar hann var að reyna að bægja hættunni frá.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin eftir þetta en allt breyttist á 63. mínútu er Atli Guðnason slapp einn gegn Bjarna Þórði markverði. Atli lék á Bjarna sem braut á honum. Var því víti dæmt og Bjarna vikið af velli með rautt spjald. Hinn 45 ára gamli Baldvin Guðmundsson kom inn í hans stað og kom engum vörnum við í vítinu sem Davíð Þór Viðarsson skoraði úr.

Eftir þetta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Stjarnan fékk reyndar ágætt færi þegar Þorvaldur átti ágætis marktilraun en Daði sá aftur við honum.

Á síðustu fimm mínútum leiksins skoraði Söderlund tvívegis en mörkin hefðu vel getað verið fleiri. Atli Guðnason fékk stórhættulegt færi eftir sendingu Söderlund en náði ekki að hitta markið.

Atli hafði þá skömmu áður átt sendingu á Söderlund sem skoraði í autt markið. Hann fékk tvö önnur dauðafæri eftir þetta og skoraði úr því síðara - með skoti úr teignum.

Stjörnumenn voru því eflaust afar fegnir þegar leikurinn var flautaður af enda búnar að vera erfiðar lokamínútur í leiknum.

FH - Stjarnan 5-1

1-0 Atli Viðar Björnsson (25.)

2-0 Ásgeir Gunnar Ásgeirsson (48.)

2-1 Hafsteinn Rúnar Helgason (50.)

3-1 Davíð Þór Viðarsson, víti (66.)

4-1 Alexander Söderlund (86.)

5-1 Alexander Söderlund (90.)

Kaplakrikavöllur. Áhorfendur: 1.638

Dómari: Jóhannes Valgeirsson (7)

Skot (á mark): 18-11 (11-9)

Varin skot: Daði 8 – Bjarni 3, Baldvin 2.

Horn: 13-3

Aukaspyrnur fengnar: 10-14

Rangstöður: 4-5

FH (4-3-3):

Daði Lárusson 7

Guðmundur Sævarsson 7

(68. Freyr Bjarnason 6)

Pétur Viðarsson 7

Tommy Nielsen 6

Hjörtur Logi Valgarðsson 7

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson 7

(56. Alexander Söderlund 8)

Davíð Þór Viðarsson 6

Björn Daníel Sverrisson 6

(77. Tryggvi Guðmundsson -)

Matthías Vilhjálmsson 7

Atli Viðar Björnsson 8 – maður leiksins

Atli Guðnason 8

Stjarnan (4-4-2):

Bjarni Þórður Halldórsson 6

Guðni Rúnar Helgason 4

Tryggvi Bjarnason 4

Daníel Laxdal 6

Hafsteinn Rúnar Helgason 5

Jóhann Laxdal 5

(64. Baldvin Guðmundsson 5)

Birgir Hrafn Birgisson 5

Björn Pálsson 6

Halldór Orri Björnsson 5

Þorvaldur Árnason 5

(86. Arnar Már Björgvinsson -)

Steinþór Freyr Þorsteinsson 6

(72. Magnús Björgvinsson -)


Tengdar fréttir

Bjarni ósáttur við rauða spjaldið

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki ánægður með rauða spjaldið sem Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður liðsins, fékk að líta gegn FH í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×