Erlent

Senda skyttusveitir til að skjóta hundruð þúsunda úlfalda

Óli Tynes skrifar
Ástralska ríkisstjórnin ætlar að senda skyttusveitir á þyrlum til þess að skjóta hundruð þúsunda úlfalda í óbyggðum landsins.

Það er nú um ein milljón úlfalda í Ástralíu og þarlendir sérfræðingar segja að minnka þurfi stofninn um tvo þriðju. Það þýðir að skjóta þarf 666 þúsund dýr. Nokkuð sem úlfaldarnir myndu líklega segja að sé djöfulleg tala.

Úlfaldar voru fyrst flutt til Ástralíu um 1840. Landkönnuðir notuðu dýrin til þess að ferðast um eyðimerkur álfunnar, enda eru þau stundum kölluð Skip eyðimerkurinnar. Eftir að landkönnuðir hættu að nota dýrin gengu þau villt og nú tvöfaldast stofninn á níu árum.

Yfirvöld segja að úlfaldarnir keppi við búfénað um æti og vinni margvíslegar skemmdir. Því hafa verið settar til hliðar 16 milljónir dollara til þess að grisja stofninn.

Þetta er ekki fyrsti dýrastofninn sem Ástralar ráðast gegn. Á undanförnum árum hafa veiðimenn sendir á þyrlum til þess að salla niður tugþúsundir af kengúrum.

Það hefur ekki gengið gagnrýnislaust fyrir sig og það eru heldur ekki allir sáttir við að fara svona með úlfaldana. Stjórnvöld segja hinsvegar að ekki sé annað fært en grisja stofninn stórlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×