Innlent

Sveitarfélög áforma nýja viljayfirlýsingu við Alcoa

Bakki stendur nálægt Húsavík. Mynd/ Pjetur.
Bakki stendur nálægt Húsavík. Mynd/ Pjetur.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að endurnýja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa virðist engu breyta um undirbúning álvers á Bakka því sveitarfélögin áforma í staðinn að skrifa upp á nýja viljayfirlýsingu við álfyrirtækið. Þá hefur stjórn Landsvirkjunar samþykkt að undirbúa stofnun félags með aðild Alcoa um orkunýtinguna.

Iðnaðarráðherra kynnti forstjóra Alcoa á Íslandi í gær þá niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að viljayfirlýsingin yrði ekki framlengd og ber öllum, sem til þekkja, saman um að andstaða vinstri grænna við frekari álversuppbyggingu réði þar mestu um.

Viljayfirlýsingin, sem brátt er úr sögunni, er milli ríkisstjórnarinnar, sveitarfélagsins Norðurþings og Alcoa. Í staðinn boðar iðnaðarráðherra nýja viljayfirlýsingu um orkunýtingu milli ríkisstjórnarinnar og viðkomandi sveitarfélaga. Sveitarfélagið Norðurþing áformar síðan í beinu framhaldi, samkvæmt heimildum fréttastofu, að gera nýja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka. Þannig verður í raun aðeins formbreyting án þess að undirbúningur nýs álvers þurfi að stöðvast.

Stjórnarsamþykkt Landsvirkjunar í síðasta mánuði styrkir enn frekar áformin en þar var forstjóra falið að undirbúa stofnun félags með Þeistareykjum og Alcoa um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum. Hugmyndin er að inn í félagið verði færður sá kostnaður sem aðilar þess hafa lagt og munu leggja í undirbúningsvinnu. Með því verður unnt að verðleggja framlag hvers og eins, sem auðveldar það að kaupa einhvern út síðar meir eða að hleypa öðrum að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×