Innlent

Dómskerfið ekki hliðhollt blaðamönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Trausti Reynisson var dæmdur til að greiða Geira á Goldfinger skaðabætur.
Jón Trausti Reynisson var dæmdur til að greiða Geira á Goldfinger skaðabætur.
„Það eina sem við vorum að gera var að skoða skilgreininguna á mansali og bera hana saman við raunveruleikann á Íslandi með því að tala við fólk sem hefur starfað í þessum bransa," segir Jón Trausti Reynisson.

Hæstiréttur dæmdi í dag Jón Trausta og Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur blaðamenn til að greiða Geira á Goldfinger 800 þúsund krónur og dæmdi ummæli þeirra um Goldfinger sem birtust í tímaritinu Ísafold dauð og ómerk. Jón Trausti segir að ekkert sé við því að gera ef dómskerfið á Íslandi sé ósammála skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna.

Jón Trausti segir að dómskerfið sé ekki hliðhollt blaðamennskunni í samanburði við margt annað. „Það reyndar kemur ekkert á óvart að þetta dómskerfi sé ósammála skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna og þeirra sem hafa starfað að kvenréttindamálum," segir Jón Trausti. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að skaðabætur sem eru dæmdar í meiðyrðamálum séu sambærilegar við miskabætur í nauðgunarmálum.

„Þannig að fórnarlömb í nauðgunarmálum virðast vera að upplifa sama skaða og fórnarlömb í meiðyrðamálum ef taka á mið af þessum fébótum sem gefnar eru upp og hafa sést í mörgum málum," segir Jón Trausti.

Jón Trausti segist ekki hafa hugsað út í hvort til greina komi að fara með málið lengra, til dæmis til Mannréttindadómstóls Evrópu. „Hvort við förum til Evrópu veit ég nú ekki. Ég held nú að Samfylkingin verði komin þangað á undan okkur," segir Jón Trausti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×