Erlent

Morðinginn greindi frá áformum sínum á netinu

Þýskur unglingsstrákur sem myrti fimmtán manns í bæ í Þýskalandi í gær varaði við árásinni á spjallrás á netinu kvöldið áður en hann lét til skarar skríða. Honum þótti sem hann væri misskilinn og afskiptur.

Tim Kretschmer myrti fimmtán manns þar af flesta í gamla gagnfræðaskólanum sínum. Kretschmer beindi þá byssunni að sjálfum sér og svipti sig lífi.

Kretscherm greindi frá áformum sínum á spjallrás á netinu nokkrum klukkustundum áður en hann gekk vopnaður inn í skólann í gærmorgun og skaut á þá sem þar voru.

Á spjallsvæðinu mun hann hafa sagt að hann hafi verið búinn að fá nóg af þessu lífi. Allir væru að hlægja að honum. Hann væri misskilinn og afskiptur. Hann ætlaði að sækja vopn - en faðir hans á einar fimmtán byssur - og fara í gamla skólann og láta fólk þar finna fyrir því. Hann bað fólk á spjallrásinni um að muna bæjarnafnið Winnenden og bað það einnig að nefna þetta ekki við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×