Lífið

Nettur fjölskyldufílingur í Júróvisjón

„Ég vinn mikið með 1., 2., 5. og 6. bekk og þar á ég sko mjög dygga stuðningsmenn sem tóku vel á móti mér á mánudeginum eftir keppni. Þau eru æðisleg," segir Hreindís Ylva Garðarsdóttir.
„Ég vinn mikið með 1., 2., 5. og 6. bekk og þar á ég sko mjög dygga stuðningsmenn sem tóku vel á móti mér á mánudeginum eftir keppni. Þau eru æðisleg," segir Hreindís Ylva Garðarsdóttir.

Vísir hafði samband við Hreindísi Ylvu Garðarsdóttir, 20 ára, söngkonu sem keppti í úrslitum Júrovisjón í ár, til að forvitnast um keppnina og kynnast henni nánar.

„Þetta var allt auðvitað æðislegt, algjör draumur enda ég mikill Eurovision aðdáandi og þess vegna svolítið óraunverulegt að vera allt í einu ein af keppendum," svarar Hreindís.

„Bakraddirnar lögðust báðar í flensu blessaðar. Ég fór nú á tímapunkti að velta fyrir mér hvort það hafi bara verið ég sem var svona erfið að þær voru bara örmagna eftir einn dag með mér."

„Allt þetta ferli hefði ekki verið eins skemmtilegt ef að ég hefði ekki verið með svona gott fólk með mér. Bakraddirnar mínar, Erla Stefánsdóttir og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, eru báðar frábærar stelpur sem ég þekkti áður og Villa (Vilhjálmur Guðjónsson) sem spilaði á gítar þekkti ég líka áður, þekki dóttur hans og svona," segir Hreindís.

„Það var bara svona nettur fjölskyldufílíngur í þessu hjá okkur, enda lagið fjölskylduframleiðsla og svona. Allir þekktust vel."

„Ég fékk mjög mikið út úr þessu öllu. Þetta er frábær reynsla og mikill skóli. Maður hefur gott af því að prófa að vinna undir svona pressu sem bein útsending og allt sem því fylgir er. Ég kunni til dæmis ekkert á að vinna í kringum sjónvarpsmyndavélar og lærði soldið inná það í keppninni með hjálp frá góðu fólki."

„Þetta var þess vegna bara ótrúlega skemmtilegt allt saman, meira að segja að bíða eftir æfingum og sminki og allt því þegar það er gert með góðu fólki er það bara gaman. Enda tókum við Sigga Eyrún og Erla ákvörðun um að taka þetta bara á stuðinu, um að gera að taka þessu ekki of hátíðlega."

Hvert stefnir þú í framtíðinni? „Ég er búin að vinna mikið í leikhúsi og langar til þess að leggja það fyrir mig en blanda söngnum og tónlistinni inn í það. Ég stefni á leiklistarnám erlendis í nánustu framtíð og hef stefnt í þá áttina í mörg ár," svarar Hreindís.

„Ég er nýútskrifuð stúdína frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Setti upp hvítu húfuna í desember 2008. Núna vinn ég sem stuðningsfulltrúi í Kársnesskóla í Kópavogi þar sem var ofboðsleg stemmning fyrir keppninni," segir hún.

„Ein lítil sjö ára komst svo einstaklega fallega að orði við mig þegar ég hitti hana snemma á mánudeginum: „Hreindís, ég var rosalega hrædd um að ég hefði kosið þig alltof oft og Páll Óskar myndi bara segja að þú myndir fara til Rússlands og þá myndirðu ekkert vera í Kársnesskóla!". Sko, ekki amalegt að fá svona móttökur."

„Ég kenni líka leiklist í Kársnesskóla. Svo er ég nemi á jazzsöngbraut við Tónlistarskóla FÍH. Svo það er nóg að gera."

„Lagið sem er eftir ömmu mína er lítið og einfalt lag sem er með gullfallegum texta eftir Hilmi Jóhannesson. Það er um stúlku sem lætur sig dreyma um sumarástina sína sem hún hefur glatað og er í laginu að sætta sig við að ástin er horfin og hún getur ekkert gert í því."

„Eins og ég sagði þá er ég rosalegur aðdáandi Eurovision keppninnar svo það voru alveg nokkur augnablik þar sem ég gat ekki annað en brosað og hugsað hvað þetta væri ótrúlega gaman og hvað ég væri heppin að fá að prófa að vera partur af þessu sem ég hef verið límd við í sjónvarpinu í mörg ár," segir hún.

„Fyndið að vera allt í einu að fara í viðtöl og fá símhringingar frá fjölmiðlum sem voru að fjalla um keppnina og keppendur. Mjög skemmtilegt."

„Já, mig langar að syngja meira í framtíðinni, þetta er svo ofboðslega gaman," segir Hreindís að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.