Innlent

Býst síður við að kæra útboðið

Uppbygging hér átti að hefjast að loknu forvali á verktaka. Fréttablaðið/Anton
Uppbygging hér átti að hefjast að loknu forvali á verktaka. Fréttablaðið/Anton

Framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Fonsa segir það seinlegt og dýrt að kæra útboð borgarinnar á uppbyggingu á brunareitnum á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Endurbyggingu yrði líklega lokið áður en dómur félli.

„Ég á síður von á því að ég fari í mál. Ég get ekki vísað þessu til kærunefndar útboðsmála, því þetta tekur ekki yfir þau,“ segir framkvæmdastjórinn, Sigurfinnur Sigurjónsson. Hins vegar bíði hann spenntur eftir niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkur, en innkauparáð borgarinnar hefur farið fram á rannsókn hennar á útboðinu.

Sigurfinnur hefur sakað framsóknarmenn hjá borginni um spillingu, eftir að verktakafyrirtækið Eykt, sem átti næstlægsta tilboðið í framkvæmdirnar, fékk verkið. Fyrirtæki Sigurfinns var hins vegar með lægsta tilboðið. Eykt hefur stutt Framsóknarflokkinn dyggilega með fjárframlögum fyrir kosningar og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknar, starfaði áður hjá Eykt.

Samtök iðnaðarins hafa einnig gert athugasemdir við útboðið. Sigurfinnur segist hafa staðist allar kröfur vegna útboðsins, þótt fulltrúar borgarinnar hafi haldið öðru fram. Framsóknarmenn hafa hafnað þessum ávirðingum. Eykt hafi styrkt aðra flokka líka.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×