Innlent

Vona að ekki verði uppsagnir

Sex konur halda uppi starfsemi skattstofunnar á Ísafirði. Skattstjórinn á Ísafirði vonar að ekki komi til uppsagna.
Sex konur halda uppi starfsemi skattstofunnar á Ísafirði. Skattstjórinn á Ísafirði vonar að ekki komi til uppsagna.
„Ég vona að það verði ekki uppsagnir,“ segir Rósa Helga Ingólfsdóttir, skattstjóri á Ísafirði, um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á uppbyggingu skattkerfisins í landinu. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hyggst fjármálaráðuneytið fækka skattstjórum úr níu í einn, auk ríkisskattstjóra.

Ráðgert er að spara með þessu 140 milljónir á ári í rekstri skattkerfisins og fækka um rúmlega tuttugu starfsmenn en halda óbreyttu hlutfalli starfsmanna á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Sex konur halda uppi starfsemi skattstofunnar á Ísafirði. Sparnaðaraðgerðir hafa verið í gangi, m.a. var ekki ráðið í starf sem losnaði nýlega. „Ég vona að það verði haldið áfram einhverri starfsemi á skattstofunni á Ísafirði,“ sagði Rósa Helga, sem flutti til Ísafjarðar fyrir rúmu ári þegar henni var veitt embætti skattstjóra þar til fimm ára. Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær gera hugmyndir fjármálaráðuneytisins ráð fyrir því að öll vinna vegna virðisaukaskatts fari fram í Hafnarfirði og öll vinna vegna tekjuskatts á Akureyri.

Rósa Helga segir áfram samt þörf fyrir fjarvinnslu, þjónustusíma og fleiri störf, sem hægt er að vinna úti á landi. Hún segist hafa áhyggjur af sínu starfsfólki vegna breytinganna. „Það er lítið annað hægt að segja,“ segir Rósa Helga Ingólfsdóttir. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×