Erlent

Lucy in the Sky látin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lucy O'Donnell.
Lucy O'Donnell.

Manneskjan, sem varð kveikjan að Bítlalaginu Lucy in the Sky with Diamonds, er látin.

Lagið kom út árið 1967 á því sem margir telja bestu plötu Bítlanna fyrr og síðar, Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band. Breska ríkisútvarpið BBC bannaði spilun lagsins enda töldu margir um orðaleik að ræða og lagið fjallaði í raun um ofskynjunarlyfið LSD, samanber upphafsstafi nafnorðanna þriggja í titlinum Lucy in the Sky with Diamonds.

Fyrir tveimur árum steig þó Lucy nokkur O'Donnell fram og greindi frá því að lagið hefði í raun verið samið um hana. Hún gekk í barnaskóla með Julian, syni John Lennon, og var þeim vel til vina. Julian litli kom einn daginn heim úr skólanum með teikningu sem hann hafði gert af Lucy og tjáði föður sínum að þetta væri Lucy in the Sky with Diamonds. Þetta hafi svo orðið Lennon sá innblástur sem gat af sér lagið umdeilda.

Frá þessu greindi Lucy í viðtali við BBC árið 2007 en hún er nú látin, 46 ára gömul, og var banamein hennar sjálfsofnæmissjúkdómurinn rauðir úlfar sem leggst á miðtaugakerfið og ýmis líffæri. Bítlalagið góða lifir þó áfram og þar með minningin um skólasystur og æskuvinkonu Julians Lennon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×