Innlent

Hundrað fá ekki framlengda samninga

Fólk sem var á tímabundnum samningum fær ekki framlengingu. Starfsfólki spítalans fækkar því um meira en hundrað á næstu mánuðum.
Fólk sem var á tímabundnum samningum fær ekki framlengingu. Starfsfólki spítalans fækkar því um meira en hundrað á næstu mánuðum.
Meira en hundrað starfsmenn Landspítalans fá ekki endurnýjaða ráðningarsamninga við spítalann í ár. Fyrstu samningarnir renna út um næstu mánaðamót.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segist ekki vita nákvæmlega um hversu marga starfsmenn sé að ræða og að það muni ekki skýrast fyrr en í byrjun desember þegar síðustu samningarnir renni út. Þá munu fleiri hundruð starfsmenn spítalans fá bréf um breytingar á starfskjörum um næstu mánaðamót.

Breytingarnar snúa meðal annars að breyttu vaktafyrirkomulagi og niðurfellingu aksturspeninga svo eitthvað sé nefnt. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sagði í blaðinu í gær að niður­skurður í heilbrigðiskerfinu myndi bitna á þjónustu og störfum í faginu.

Björn segir aðgerðir stjórnenda spítalans hafa miðað að því að komast hjá uppsögnum og að halda uppi þjónustu en finna leiðir til að gera hana ódýrari.

„Það má vissulega kalla það skerðingu þegar við breytum til dæmis sólarhringsdeildum í dagdeildir og sjö daga deildum í fimm daga deildir," segir Björn. „Og það mun væntanlega bitna á sjúklingunum og aðstandendum þeirra."

Björn býst við að þjónusta skerðist og uppsagnir blasi við þegar fjárlög næsta árs líti dagsins ljós. „Við erum komin á endastöð með það sem er hægt að gera án þess að skerða þjónustu eða fara í uppsagnir," segir Björn.- kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×