Enski boltinn

Öruggur sigur Liverpool á West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard fagnar síðara marki sínu í dag.
Steven Gerrard fagnar síðara marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool endurheimti toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í dag með 3-0 sigri á West Ham í dag.

Liverpool og Manchester United eru bæði með 80 stig á toppi deildarinnar en United á tvo leiki til góða.

Steven Gerrard skoraði fyrstu tvö mörk Liverpool í leiknum, það síðara úr víti. Ryan Babel kom svo inn á sem varamaður og bætti þriðja markinu við undir lok leiksins.

Fernando Torres var í byrjunarliði Liverpool í dag og lagði upp fyrsta mark liðsins strax á 2. mínútu leiksins. Hann gaf stungusendingu inn fyrir vörn West Ham þar sem Gerrard var mættur. Hann lék á Robert Green markvörð og skoraði af öryggi.

Luis Boa Morte gerði sig svo sekan um mistök er hann togaði niður Torres í vítateignum á 38. mínútu. Gerrard tók vítið en Green varði frá honum. Gerrard náði hins vegar frákastinu og skoraði.

Ryan Babel innsiglaði svo sigurinn á 84. mínútu. Hann átti skalla að marki sem Green varði en Babel náði frákastinu og skoraði af öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×