Grindavík Bæjarstjórinn í Grindavík, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, hefur sótt um embætti sóknarprests í Kolfreyjustaðarprestakalli í Austfjarðaprófastsdæmi.
Jóna Kristín var ráðin bæjarstjóri Grindavíkur í júlí í fyrra. Hvers vegna er hún strax farin að líta í kringum sig?
„Þetta er sérstakt brauð í mínum huga. Ég er Fáskrúðsfirðingur, fædd og uppalin þarna. Auðvitað er þetta ekki heppilegasti tíminn, ég hefði viljað að brauðið yrði laust síðar, en ég ræð því ekki. Þetta er í þriðja skipti sem þetta prestakall er laust síðan ég var vígð fyrir tuttugu árum og í hin tvö skiptin lét ég það framhjá mér fara. Nú ætla ég að láta á það reyna hvort leiðin liggur aftur austur eða ekki.“
Hún tekur ekki undir að miklir erfiðleikar hafi verið í pólitíkinni í Grindavík.
„Nei, meirihlutasamstarfið hefur gengið vel og ég tel flest stór mál vera að falla í góðan jarðveg. Veturinn lofar góðu í Grindavík og við erum eitt best setta sveitarfélagið,“ segir hún. Ástæðan sé frekar sú að Kolfreyjustaðarprestakall sé „hinn staðurinn á Íslandi sem er mér kær“. Aðrir umsækjendur um brauðið eru Hólmgrímur Elís Bragason og Þóra Ragnheiður Björnsdóttir.
Biskup Íslands skipar í embættið til fimm ára, að fenginni umsögn valnefndar.- kóþ