Innlent

Umferðaljósaþjófur iðraðist gjörða sinna

„Sorry - sé mjög eftir þessu" voru skilaboðin á pakka sem reyndist innihalda umferðarljós sem stolið var af gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar fyrir viku síðan. Skilaboðin voru skrifuð á útprentaða frétt af vefnum sem límd var á svartan plastpoka, sem hafði verið lætt inn á trésmíðaverkstæði Vegagerðarinnar, sem staðsett er á móts við skrifstofur Framkvæmda- og eignasviðs í Borgartúni.

Í tilkynningu frá borginni segir að Dagbjartur Sigurbrandsson, verkefnastjóri hjá Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar hafi að vonum verið ánægður með að endurheimta ljósahausinn, sem verður prufukeyrður á verkstæði umferðarljósadeildar og settur upp við fyrsta tækifæri. Við fyrstu sýn virtist allt í lagi með hausinn og gerði Dagbjartur ekki ráð fyrir að neinir eftirmálar yrðu vegna þessa máls. Batnandi væri mönnum best að lifa.




Tengdar fréttir

Stálu umferðarljósum

Umferðarljósum var stolið í gærkvöldi af gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar í Reykjavík. Ljósahausinn sem tekinn var ófrjálsri hendi er nokkru minni en hefðbundin ljós og var hann festur á miðjan staur, sem er vestanmegin gatnamóta fyrir umferð frá Holtavegi að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Ljósin voru sett upp nýlega og tengd ljósastýringu á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×