Enski boltinn

Stoke í sterkri stöðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mamady Sidibe fagnar öðru marka sinna í gær.
Mamady Sidibe fagnar öðru marka sinna í gær. Nordic Photos / Getty Images
Stoke City, gamla Íslendingaliðið, er á góðri leið með að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Liðið vann gríðarlega mikilvægan sigur á öðru toppliði í ensku B-deildinni, Bristol City, í gær, 2-1.

Það var Malímaðurinn Mamady Sidibe sem skoraði tvívegis með skömmu millibili í fyrri hálfleik en Dele Adebola minnkaði muninn fyrir gestina í síðari hálfleik.

Stoke er nú í öðru sæti deildarinnar með 75 stig, tveimur á eftir toppliði WBA. Tvö efstu liðin fara beint í efstu deild en liðin í 3.-6. sæti taka þátt í umspilskeppni um eitt laust sæti í deildinni.

Stoke er nú öruggt með sæti í umspilskeppninni en er sem fyrr segir í sterkri stöðu þegar einungis tvær umferðir eru eftir í deildinni.

Stoke mætir Colchester á útivelli í næstu umferð og svo Leicester á heimavelli í lokaumferðinni eftir tvær vikur.

Colchester er á botni deildarinnar og þegar fallið en Leicester á í harðri fallbaráttu en liðið er nú tveimur sætum og tveimur stigum frá fallsætinu.

Stoke er þremur stigum á undan Hull sem er í þriðja sæti deildarinnar og má því gera jafntefli í öðrum leiknum.

Tony Pulis, stjóri Stoke, hældi stuðningsmönnum liðsins mikið eftir leikinn í gær.

„Ég hef áður sagt að þeir eru eins og tólfti maðurinn í liðinu okkar. Stuðningsmennirnir voru frábærir í dag. Við erum nú í góðum málum fyrir lokasprettinn í deildinni og ég er gríðarlega ánægður maður í dag. En við þurfum að halda haus og reyna að ná sex stigum úr síðustu tveimur leikjunum."

West Brom þarf einn sigurleik í viðbót til að gulltryggja úrvalsdeildarsætið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×