Innlent

Stjórntækin vegna stöðu bankanna til í Seðlabankanum

Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir þau stjórntæki sem hafa þurfti til að bregðast við stöðu bankanna vera til í Seðlabankanum.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri fór í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs í morgun yfir bankahrunið og sagði ríkisstjórnina, Fjármálaeftirlitð og bankana ekki hafa sinnt ítrekuðum viðvörunum Seðlabankans. Davíð sagði einnig að Seðlabankinn hefði ekki haft þau þau úrræði í bankaeftirliti sem til hefði þurft heldur Fjármálaeftirlitið. Bankinn hefði til að mynda ekki getað stöðvað stofnun útibúa í útlöndum á vegum viðskiptabankanna.

Yngvi Örn, sem tók þátt í pallborði á fundinum í morgun, bendir á að fundurinn hafi snúist um úrlausn fjármálakreppunnar en ræða bankastjóra Seðlabankans hafi mest snúist um aðdragandann og hverjir bæru ábyrgð á stöðunni. Á henni virtust allir aðrir bera ábyrgð en Seðlabankinn.

„Eitt af því sem ég benti á er að Seðlabankinn er birgur af stjórntækjum sem hefði mátt beita til að bregðast við stöðu bankanna. Seðlabankinn getur stjórnað bindiskyldu bankanna og hann hafði heimild til þess að setja á þá lausafjárreglur þannig að þeir legðu meira til hliðar af lánum til þess að mæta hugsanlegum erfiðleikum. Stjórntækin eru hvergi betri en í Seðlabankanum," segir Yngvi.

Um lausnir í yfirstandandi kreppu segir Yngvi að þær liggi á borðinu. Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið hafi óskað eftir aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þar liggi fyrir efnahagsáætlun til næstu þriggja ára. „Það er ekki um annað að ræða en að fylkja sér á bak við hana," segir Yngvi. Næstu verkefni séu að koma krónunni í lag og bregðast við vanda fyrirtækja og heimila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×