Enski boltinn

Wenger harður á að kæra Inter

NordcPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, íhugar að kæra ítalska félagið Inter til FIFA vegna meintra umleitana þess til að fá til sín miðjumanninn Alex Hleb.

Hvít-Rússinn hefur verið mikið orðaður við lið á meginlandinu í vetur þar sem Inter og Barcelona hafa verið sögð áhugasöm.

Wenger hefur þó alltaf ítrekað að hann vilji halda í miðjumanninn sterka en hann hefur nú fengið sig fullsaddan af afskiptum félaga af þeim Hleb og Mathieu Flamini.

Fréttir af ólöglegum fundi forráðamanna Inter með Hleb láku út í síðasta mánuði þegar Arsenal spilaði við AC Milan í Meistaradeildinni og Wenger segist vera búinn að afla sér betri upplýsinga um málið. Hann vill ekki gefa upp hvaða upplýsingar hafa komið fram í málinu, en vandar Inter ekki kveðjurnar.

"Auðvitað mun ég láta FIFA vita af svona löguðu, sérstaklega vegna Inter og hegðunar útsendara félagsins. Nú veit ég meira hvað gerðist í Mílanó um daginn, en ég mun ekki gefa það upp nema við aðila sem tengjast málinu beint. Ég vil ekki segja meira um málið annað en það að það er ósanngjarnt að svona skuli eiga sér stað," sagði Wenger.

Hann ítrekaði að Mathieu Flamini væri eini maðurinn hjá Arsenal sem væri í aðstöðu til að ræða við önnur félög, því samningur hans er að renna út. Það mun væntanlega ráðast á allra næstu dögum hvort Flamini framlengir við Arsenal eða fer frá félaginu.

"Flamini má fara hvert sem hann vill, en hann má líka alveg vera hér áfram. Hleb á tvö ár eftir af samningi sínum og er ekki til sölu," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×