Innlent

Tveir seðlabankamenn í stjórn Fjármálaeftirlitsins

Jón Sigurðsson varaformaður bankaráðs Seðlabankans og formaður stjórnar FME.
Jón Sigurðsson varaformaður bankaráðs Seðlabankans og formaður stjórnar FME.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri gagnrýndi Fjármálaeftirlitið nokkuð á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun. Vék hann að því í máli sínu að árið 1998 hefði allt bankaeftirlit verið flutt frá Seðlabankanum og yfir í Fjármálaeftirlitið. Heimildir þess sem voru allvíðtækar fyrir, hafi verið auknar og fjárframlög til þess stórlega vaxið á síðustu árum. Tveir seðlabankamenn sitja í stjórn FME.

„Eftirlitið hefur víðtækar heimildir og úrræði til að fá upplýsingar frá bankakerfinu, svo það megi gegna sínu hlutverki, og úrræði til að knýja fram breytingar á háttsemi og heimildir til þess að fara ofan í hverja kytru, skúffu og skáp í bankastofnunum til að sannfæra sig um að allt sé þar með felldu. Seðlabankinn hefur engin þess háttar úrræði lengur, enda hlutverki hans breytt. Hann getur þannig ekki sett tilsjónar- eða eftirlitsmenn inn í bankana, ef hann vildi, eins og Fjármálaeftirlitið getur," sagði Davíð í ræðu sinni í morgun.

Í stjórn Fjármálaeftirlitsins sitja þeir Stefán Svavarsson og Jón Sigurðsson. Stefán er aðalendurskoðandi Seðlabankans en Jón er varaformaður bankaráðs, Jón er einnig formaður stjórnar FME.

Ekki náðist í Stefán Svavarsson í dag en Jón Sigurðsson sagðist í samtali við Vísi ætla að senda frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Davíðs seinna í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×