Innlent

Álfheiður spyr ítarlega um flug til Búkarest

MYND/GVA

Álfheiður Ingadóttir, þingamaður Vinstri - grænna, hefur lagt fram ítarlega fyrirspurn til munnlegs svars um flug ráðherra í einkaþotu á fund NATO í Búkarest í síðustu viku.

Álfheiður spyr hver heildarkostnaður hafi verið við flugferð forsætis- og utanríkisráðherra ásamt fylgdarliði í einkaþotunni. Þá vill hún einnig fá upplýsingar um hver heildarkostnaðurinn hefði verið ef flogið hefði verið með ódýrasta áætlunarflugi.

Álfheiður spyr einnig með hvaða hætti allra leiða hafi verið leitað við að finna ódýrasta áætlunarflug og halda kostnaði við ferðina niðri og jafnframt hversu mikill afslátturinn af einkaþotunni hafi verið og á hvaða forsendum hann hafi verið veittur. Fram hefur hefur komið í málflutningi ráðherra að gerður hafi verið góður samningur við Icejet vegna málsins en að heiðursmannasamkomulag hafi verið gert um að greina ekki frá kostnaðinum.

„Ef dýrara er að fljúga með einkaþotu en áætlunarflugi, jafnvel þótt afsláttur sé veittur á flugi með einkaþotu, hvers vegna var þá ekki ódýrari leiðin valin?" spyr Álfheiður enn fremur. Hún innir forsætisráðherra enn fremur eftir því hvort hann telji það gagnsæja og góða stjórnsýslu að halda upplýsingum um kostnað við ferðir æðstu embættismanna leyndum og spyr ef svo sé á hvaða forsendum og með hagsmuni hverra að leiðarljósi sé samið um slíkt.

Loks spyr Álfheiður hvort ráðherra telji það gott fordæmi, m.a. í umhverfislegu tilliti og með tilliti til hvatningar opinberra aðila til almennings um að draga saman neyslu vegna óvissu í efnahagsmálum, að æðstu embættismenn fljúgi um í opinberum erindagjörðum í einkaþotum.

Þetta er ekki fyrsta fyrirspurn Álfheiðar um ferðalög ráðamanna því í síðustu viku lagði hún fram fyrirspurn þar sem óskað var upplýsinga um allar utanferðir ráðherra frá myndun nýrrar ríkisstjórnar í fyrra og kostnað við þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×