Erlent

Ál og kopar skotmörk innbrotsþjófa vegna hækkana

Æ fleiri hús í Bandaríkjunum leggjast í eyði vegna vanskila eigenda. Myndin tengist ekki þessari frétt.
Æ fleiri hús í Bandaríkjunum leggjast í eyði vegna vanskila eigenda. Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/AP

Bandaríkjamenn verða um þessar mundir í auknum mæli vitni að innbrotum sem beinast að óhefðbundnum verðmætum. Koparrör hitaveitulagna og hvers kyns hlutir úr áli eru nýjustu skrautfjaðrirnar í þýfisflórunni samhliða mikilli hækkun á verði þessara málma í Bandaríkjunum og víðar. Þjófnaðirnir haldast í hendur við mikla fjölgun auðra húsa og íbúða í kjölfar útburðar vegna vanskila eigenda á húsnæðislánum.

Hinir stolnu málmar eru gjarnan seldir brotajárnssölum og þaðan sendir úr landi, til Kína eða Indlands. Jafnvel símalagnir úr kopar hverfa eins og dögg fyrir sólu úr yfirgefnum húsum en þau skipta hundruðum í sumum hverfum, t.d. Slavic Village í Cleveland í Ohio-ríki og Brockton í Massachusetts þar sem 400 íbúðir fóru í eyði í fyrra og búist er við öðru eins í ár.

Utan á sum húsin hafa verið hengd skilti með tilkynningum á borð við „Enginn kopar hér, aðeins PVC" til að fyrirbyggja innbrot og tilheyrandi skemmdir. PVC stendur fyrir fjölliða vínilklóríð en það er plastefni sem algengt er að nota í ýmsar lagnir í stað málma.

„Hér seljast sum húsin á 100 dollara [7.600 kr.]," sagði Tony Brancatelli sem situr í borgarráði Cleveland. Hinir stolnu málmar seljast að hans sögn hærra verði en fasteignirnar sem þeim hefur verið stolið úr. Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×