Enski boltinn

Wenger svarar Bentley fullum hálsi

NordcPhotos/GettyImages

Arsene Wenger hefur beðið fyrrum leikmann sinn David Bentley um að halda skoðunum sínum á leikmönnum Arsenal fyrir sjálfan sig.

Bentley lét hafa það eftir sér í fjölmiðlum í gær að Theo Walcott væri nær að fara frá Arsenal ef hann ætlaði sér að fá að spila og þar með bæta sig sem leikmaður.

Bentley var sjálfur hjá Arsenal en náði aldrei að brjóta sér leið inn í liðið þrátt fyrir að vera talinn mjög efnilegur. Hann hefur síðan sprungið út hjá Blackburn og hefur verið valinn í enska landsliðshópinn.

"David Bentley má hafa sínar skoðanir en það þýðir ekki að hann hafi rétt fyrir sér. Mér finnst að leikmenn ættu ekki að hvetja kollega sína til að fara frá félögum - það er ekki hans mál. Þegar menn eru á mála hjá einu af stærstu félögum heims er eðlilegt að þar sé samkeppni. Menn verða ekki endilega betri ef þeir fara til lakari liða - þá eru þeir ekki lengur á toppnum," sagði Wenger í samtali við Sun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×