Enski boltinn

Alvöru bikarævintýri Barnsley

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leikmenn Barnsley fögnuðu innilega.
Leikmenn Barnsley fögnuðu innilega.

Simon Davey, knattspyrnustjóri Barnsley, var í skýjunum eftir magnaðan sigur liðsins gegn Liverpool í enska bikarnum í dag.

„Þetta er algjört ævintýri, draumar okkar rættust. Að skora sigurmarkið í blálokin fyrir framan Kop stúkuna er magnað. Leikmenn eiga hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu frá upphafi til enda. Þeir uppskáru það sem þeir sáðu," sagði Davey.

Hetja Barnsley var markvörðurinn Luke Steele. Þessi 23 ára leikmaður kom á láni frá West Brom á fimmtudaginn til að leysa markmannsvandræði Barnsley og var besti maður vallarins í sínum fyrsta leik.

Steele var áður í herbúðum Manchester United. „Ég er eiginlega ekki búinn að átta mig á þessu ennþá! Þetta er ótrúleg tilfinning og ég er ótrúlega ánægður. Menn höfðu trú á þessu allan tímann," sagði Steele sem átti nokkrar magnaðar vörslur.

Leikmenn Liverpool fá ekki langan tíma til að gráta þetta tap en þeir mæta Inter í Meistaradeild Evrópu á þriðjudag. „Þetta var mjög furðulegur leikur og erfitt að útskýra þetta. Ég er ótrúlega svekktur en get ekki kvartað yfir vinnusemi minna manna," sagði Rafael Benítez, stjóri Liverpool

„Við vorum miklu betri en nýttum einfaldlega ekki færin. Markvörður þeirra gerði gæfumuninn. Við verðum að halda haus og byrja að hugsa um leikinn gegn Inter. Við hefjum undirbúning fyrir þann leik á æfingu á morgun," sagði Benítez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×