Innlent

Aðalfundur RÚV frestast vegna þess að stofnefnahagsreikning vantar

Ómar Benediktsson, stjórnarformaður RÚV ohf.
Ómar Benediktsson, stjórnarformaður RÚV ohf. MYND/Pjetur

Aðalfundur Ríkisútvarpsins ohf. verður ekki haldinn á réttum tíma vegna þess að enn vantar stofnefnahagsreikning fyrir stofnunina. Vonir standa þó til að aðalfundurinn verði haldinn í febrúar.

Ríkisútvarpið varð að opinberu hlutafélagi í fyrra og samkvæmt samþykktum þess á að halda aðalfund í lok janúar og á að boða hann með hálfsmánaðar fyrirvara. Ekki hefur enn verið boðað til fundarins og að sögn Ómars Benediktssonar, stjórnarformanns RÚV ohf., er það vegna þess að enn vantar stofnefnahagsreikning fyrirtækisins. Fyrr sé ekki hægt að loka ársskýrslu fyrirtækisins.

„Mér skilst að stofnefnahagsreikningurinn sé í burðarliðnum og ég geri mér vonir um að aðalfundurinn verði haldinn í febrúar," segir Ómar. Hjá Ríkisendurskoðun fékkst það staðfest að reikningurinn væri enn þar en ekki lægi fyrir hvenær hann yrði tilbúinn.

Aðspurður segir Ómar að rekstarniðurstöður síðasta árs liggi fyrir en hann telur ekki rétt að greina frá þeim fyrr en ársskýrslan í heild verði kynnt, það er á aðalfundi RÚV. Í ársskýrslunni á einnig að tiltaka hvernig Ríkisútvarpinu hafi tekist til við að uppfylla lögbundnar skyldur sínar sem útvarp i almannaþágu.

Á aðalfundi RÚV verður jafnframt fjallað um starfskjarastefnu Ríkisútvarpsins, kjör útvarpsstjóra og annarra stjórnenda og sömuleiðis þóknun til stjórnarmanna RÚV. Boða skal hluthafa, það er fulltrúa ríkisins, stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur á hlutahafafund og fjölmiðla á aðalfund. Jafnframt er þingmönnum heimilt að sækja aðalfundinn og bera fram skriflegar fyrirspurnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×