Enski boltinn

Ronaldo tryggði United sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn United fagna fyrra marki Cristiano Ronaldo.
Leikmenn United fagna fyrra marki Cristiano Ronaldo. Nordic Photos / Getty Images

Cristiano Ronaldo var hetja Manchester United er hann tryggði sínum mönnum 3-1 sigur gegn Tottenham með tveimur mörkum í síðari hálfleik. Þar með er United komið áfram í 16-liða úrslit bikarkeppninnar, rétt eins og Arsenal, Chelsea og Liverpool.

Manchester United byrjaði betur í leiknum en það voru gestirnir frá Lundúnum sem skoruðu fyrsta markið.

Robbie Keane var þar að verki eftir laglega fyrirgjöf Aaron Lennon. Rangstöðuvörn United brást og þurfti Keane ekkert annað að gera en að stýra knettinum í markið af stuttu færi.

Mark Tottenham kom á 24. mínútu og fjórtán mínútum síðar kom jöfnunarmark United.

Boltinn barst inn á teig Tottenham þar sem Ryan Giggs tók við honum og lagði hann fyrir Carlos Tevez sem kom aðvífandi og þrumaði knettinum í netið.

Þannig var staðan í hálfleik en Jermaine Jenas fékk kjörið tækifæri til að koma Tottenham aftur yfir snemma í síðari hálfleik.

Hann var einn með boltann gegn markverði United en fór hræðilega illa að ráði sínu og skaut boltanum langt fram hjá markinu.

En aðeins nokkrum mínútum síðar fór Cristiano Ronaldo einnig illa með gott færi sjálfur.

Það var þó um miðbik síðari hálfleiksins að kom að vendipunkti leiksins.

Michael Dawson gerði sig sekan um að handleika knöttinn í eigin vítateig eftir að hafa verið í baráttu við Wayne Rooney. Hann fékk að líta rauða spjaldið og um leið var vítaspyrna dæmd.

Ronaldo nýtti hins vegar færið í þetta skiptið og kom United yfir í leiknum.

Hann innsiglaði svo sigurinn með marki á lokamínútum leiksins. Radek Cerny, markvörður Tottenham, hefði átt að verja frá honum en missti boltann undir sig og í markið.

Fyrr í dag komst Cardiff áfram í fimmtu umferð bikarkeppninnar eftir 2-1 sigur á Hereford á útivelli.

Nú klukkan 16.00 mætast Sheffield United og Manchester City í lokaleik fjórðu umferðarinnar, 32-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×