Innlent

Blóðið fossar í Framsókn

Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fór hörðum orðum um Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa flokksins, í Þættinum Silfur Egils á Ríkissjónvarpinu í dag.

Guðjón sagðist vera með mörg hnífasett í bakinu eftir rýtingsstungur Björns Inga. Kjördæmasamband Framsóknarflokksins í Reykjavík lýsti í gær yfir fullum stuðningi við Björn Inga eftir að hann sagði í sjónvarpsviðtali að hann treysti sér varla til að starfa við núverandi aðstæður.

Guðjón Ólafur sagði hótun Björns Inga um að hætta vera sviðsett leikrit til að afla sér samúðar og stuðningsyfirlýsinga.

Átökin nú blossa upp eftir að Guðjón Ólafur ýjaði að því í bréfi til framsóknarmanna í Reykjavík að frambjóðendur flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006 hafi fengið föt fyrir hundruð þúsunda á kostnað flokksins.

Fyrrverandi formaður Sambands ungra Framsóknarmanna, Haukur Logi Karlssson, segir á heimasíðu sinni augljóst að kosningasjóður hafi borgað fyrir föt Björns Inga í síðustu kosningabaráttu. Það sé rétt sem hann segi að flokkurinn á landsvísu hafi ekki greitt fyrir fötin, en bókhaldi í einstökum kosningabaráttum sé haldið aðskyldu frá flokkskontórnum.

Í SMS skilaboðum sem Björn Ingi sendi fréttamanni Stöðvar 2 þegar óskað var eftir viðbrögðum hjá honum segir hann að málið sé mannlegur harmleikur. Nú liggi fyrir að fatakaup hafi aldrei verið ástæðan fyrir bréfi Guðjóns heldur uppsöfnuð gremja yfir pólitísku gengi á löngu árabili. Svona árás á karakter eins mans eigi sér varla fordæmi í íslenskum stjórnmálum og dæmi sig sjálf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.