Enski boltinn

Havant & Waterlooville mætir Liverpool á Anfield

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Havant & Waterlooville fagna einu marka sinna í kvöld.
Leikmenn Havant & Waterlooville fagna einu marka sinna í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Einhver óvæntustu úrslit í sögu ensku bikarkeppninnar urðu að veruleika í kvöld þegar að utandeildarliðið Havant & Waterlooville vann 4-2 sigur á Swansea.

Þar með er ljóst að Havant & Waterlooville mætir Liverpool á Anfield í fjórðu umferð bikarkeppninnar.

Hereford komst einnig áfram í fjórðu umferðina með 1-0 sigri á Tranmere í kvöld.

Þetta byrjaði ekki gæfulega hjá Swansea, sem er á toppi ensku C-deildarinnar, er Gary Monk skoraði sjálfsmark strax á 4. mínútu leiksins.

Jamie Collins og Rocky Baptiste komu Havant & Waterlooville í 3-0 með mörkum á 25. og 37. mínútu.

En Swansea neitaði að gefast upp og þeir Guillem Bauza og Jason Scotland minnkuðu muninn í eitt mark með marki sitt hvoru megin við hálfleikinn.

En ótrúlega nokk þá bættu heimamenn enn í. Tom Jordan skoraði fjórða mark Havant & Waterlooville á 65. mínútu og dugði það til að tryggja liðinu sæti í 4. umferðinni.

Havant & Waterlooville leikur í næstefstu deild í utandeildarkeppninni eða í sjöttu efstu deild í deildarfyrirkomulaginu í Englandi.

Leikmennirnir eru allir áhugamenn en þeir fá að launum fyrir sigurinn í kvöld ferð til Las Vegas í lok tímabilsins í vor.

Hereford leikur í ensku D-deildinni en Tranmere í C-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×