Enski boltinn

Þegiðu, Sol

Sol Campbell dregur metnað stjórnarinnar í efa, en þiggur launin sín athugasemdalaust
Sol Campbell dregur metnað stjórnarinnar í efa, en þiggur launin sín athugasemdalaust NordicPhotos/GettyImages

Framkvæmdastjóri Portsmouth hefur beðið Sol Campbell og aðra leikmenn liðsins um að hætta að draga metnað félagsins í efa í viðtölum við fjölmiðla.

Sol Campbell, David James og Sylvain Distin hafa allir lýst yfir áhyggjum sínum yfir þvi að félagið hafi ekki keypt leikmenn í janúarglugganum í nýlegum viðtölum og þetta þykir Peter Storrie ansi blóðugt. Portsmouth eyddi þannig um 30 milljónum punda í leikmenn síðasta sumar.

"Við tölum ekki um það hvernig leikmennirnir spila og því ættu þeir ekki að tala um það hvernig stjórnin ver peningum félagsins. Hvernig getur einhver eins og Sol verið að segja svona lagað? Við höfum eytt meiru en flest úrvalsdeildarliðin og því botnum við ekki í þessum ummælum. Við höfum aldrei eytt meiru en undanfarið og því er svekkjandi að lesa svona ummæli frá okkar eigin leikmönnum," sagði Storrie.

Portsmouth er sagt vera við það að ganga frá kaupum á miðjumanninnum Lassana Diarra frá Arsenal fyrir um fimm milljónir punda og ef til vill taka þá Sol Campbell og félagar gleði sína á ný.

Svo geta menn spurt sig hvort Sol Campbell væri með fasta vinnu ef stjórn Portsmouth væri metnaðarfyllri en hún er í dag...




Fleiri fréttir

Sjá meira


×