Enski boltinn

Góður sigur Sunderland á Portsmouth

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kieran Richardson skoraði bæði mörk Sunderland.
Kieran Richardson skoraði bæði mörk Sunderland. Nordic Photos / Getty Images

Sunderland vann dýrmætan sigur á Portsmouth í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Portsmouth hafði unnið tíu af síðustu ellefu útileikjum sínum í deildinni og kom því 2-0 sigur Sunderland talsvert á óvart í dag.

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth og lagði upp úrvalsfæri fyrir Benjani sem fór illa af ráði sínu og misnotaði færið.

En mörk Sunderland komu bæði í fyrri hálfleik og skoraði Kieran Richardson þau bæði með ellefu mínútna millibili.

Það fyrra kom á 33. mínútu eftir laglegan undirbúning Kenwyne Jones. Í seinna skiptið fékk hann boltann frá Daryl Murphy, lék Hermann heldur grátt og skoraði með laglegu skoti.

Portsmouth fékk góð tækifæri til að minnka muninn í síðari hálfleik en allt kom fyrir ekki. Sunderland fékk líka sín færi og átti Richardson til að mynda skot í slá Portsmouth-marksins.

Sunderland er í átjánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, rétt eins og Bolton, Birmingham og Wigan.

Bolton á reyndar leik til góða, gegn Blackburn klukkan 16.00 í dag.

Portsmouth er í áttunda sætinu með 34 stig og er fimm stigum á eftir Manchester City sem er í sjöunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×