Innlent

Segir óvissu um framtíð embættis hafa truflandi áhrif

Lögreglustjóri Suðurnesja segir óvissuna um framtíð embættisins hafa truflandi áhrif á starfsemina. Hann kallar eftir niðurstöðu í málinu sem allra fyrst.

Samkvæmt tillögum sem nú liggja fyrir frá dómsmálaráðuneytinu verður embætti lögreglunnar og tollgæslunnar á Suðurnesjum skipt upp en embættin voru sameinuðu á síðasta ári.

Er þetta gert til að bregðast við yfirvofandi fjárskorti en 200 milljónir króna vantar til hægt sé að tryggja óbreyttan rekstur embættisins.

Starfsmenn embættisins hafa mótmælt breytingunum sem þeir telja að muni skaða starfssemina. Í Fréttablaðinu í morgun var fullyrt að þingflokkur Samfylkingarinnar leggist gegn hugmyndum ráðuneytisins og telji að breytingarnar séu óskynsamlegar.

Jóhann R. Benendiktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir óvissuna um framtíð embættisins hafa truflandi áhrif. „Það segir sig sjálft að það ástand sem er núna er mjög vont. Þetta hefur truflandi áhrif á alla starfsemina þegar óvissa er. Ég er fyrst og fremst þakklátur starfsfólki mínu að halda einbeitingu við þessar erfiðu aðstæður," segir Jóhann.

Jóhann segir núverandi skipulag vera gott. „Því nánari sem samvinnan er og stjórnun einfaldari og samþættuð hlýtur að skila okkur meiri árangri en aðskilin stjórnun. Ég held að allir hljóti að fallast á slíka niðurstöðu og ég held að slík stjórnunarfræði hljóti að skila meiri árangri frekar en hitt," segir Jóhann.

Jóhann kallar eftir niðurstöðu í málinu sem allra fyrst. „Ég hef alla vega sagt það mjög skýrt að ég vilji sjá samræmda stjórnun lögreglu og tollgæslu," segir Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×