Innlent

Kanna hagkvæmni þess að framleiða eldsneyti hér á landi

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra undirritaði viljayfirlýsingu í morgun með japanska fyrirtækinu Mitsubishi, Heklu, Orkustofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands um að athuga hvort hagkvæmt sé að byggja og reisa eldsneytisverksmiðju á Íslandi.

Fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að áhugi Japananna byggist á árangri Íslendinga í orkumálum og er ætlunin að framleiða eldsneyti sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi. Það nefnist Dimethyl Ether. Það getur komið í stað díselolíu á bifreiðar og ekki síður í stað brennsluolíu á skip. Framleiðslan byggir á nýlegri tækni sem Mitsubishi hefur þróað og hefur einkaleyfi fyrir.

Þá segir í tilkynningunni að til standi að nýta útblástur koltvísýrings sem fellur til við framleiðslu áls og kísiljárns en einnig kemur til greina að nýta koltvísýring sem kemur upp með jarðhitavökva í jarðhitaorkuverum. Til að framleiða DME þarf auk þess vetni, sem má afla með ýmsu móti, svo sem með rafgreiningu vatns eða með hitun á lífrænu sorpi. Reiknað er með að hagkvæmnigreiningunni verði lokið á hálfu ári. Ef niðurstaða hennar reynist jákvæð verður tekin ákvörðun um að það hvort tilraunaverksmiðja verður byggð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×