Innlent

Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum

Marsibil Sæmundardóttir varaborgarfulltrúi hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum en hún mun þó starfa áfram sem óháður varaborgarfulltrúi. Þetta kemur fram á bloggsíðu hennar.

 

„Öllum ætti að vera ljós sú atburðarrás síðustu daga, sem leiddi til þess að sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur í Reykjavík tilkynna myndun nýs meirihluta - þess fjórða á kjörtímabilinu.

Afstaða mín til þess meirihluta ætti einnig að vera ljós. Ég mun ekki taka þátt í starfi hans og í ljósi þess er augljóst að pólitísk staða mín er gjörbreytt. Ég er í raun munaðarlaus í mínum eigin flokki og óbreytt framhald er ekki gott fyrir neinn - hvorki fyrir mig né framsóknarflokkinn.

Ég hef því tekið þá óumflýjanlegu ákvörðun að kveðja framsóknarflokkinn. Ég mun hins vegar starfa áfram að borgarmálum sem óháð og mun sem slík starfa með minnihlutanum í borgarstjórn. Það var ekki á dagskrá hjá mér í síðustu viku að hætta í framsóknarflokknum né að hætta í pólitík. Mínar pólitísku áherslur hafa ekkert breyst en aðstæður hafa hins vegar breyst þannig að mína pólitík get ég ekki lengur rekið í framsóknarflokknum.

Ég hef þegar tilkynnt Óskari Bergssyni og skrifstofu framsóknarflokksins þessa ákvörðun mína.

Ákvörðunin er ekki auðveld þar sem ég á marga góða félaga í framsóknarflokknum - enda er þar eins og í öllum flokkum margt frábært fólk. Ég er þakklát öllum þeim sem hafa unnið með mér þar og óska þeim velfarnaðar.

Ég legg áherslu á að þessi ákvörðun er ekki tekin með það að markmiði að skaða framsóknarflokkinn, heldur er ég tilneydd í þetta skref í þeirri stöðu sem komin er upp. Ég mun áfram eins og hingað til, styðja góð mál, hvaðan sem þau koma - en sem betur fer er samstaða í borgarpólitíkinni um flest mál og ég vona að við sem vinnum að borgarmálum Reykvíkinga berum nú gæfu til að setja þau í forgang. Ég ítreka að ég mun ekki stunda tækifærismennsku og fella meirihlutann komi til þess að Óskar Bergsson forfallist tímabundið. Slík tækifærismennska þjónar ekki hagsmunum borgarbúa.

Ég vona að Óskari Bergssyni, framsóknarflokknum og nýjum meirihluta í Reykjavík gangi vel að vinna saman að mikilvægum málefnum borgarinnar. Það er einnig einlæg von mín að þessi meirihlutamyndun og því sem henni fylgir séu síðustu stórpólitísku tíðindin í Reykjavík þetta kjörtímabilið.

 

Reykjavík, 18. ágúst 2008

Marsibil Sæmundardóttir"

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×