Enski boltinn

Stórt skref hjá Manchester United

NordcPhotos/GettyImages

Manchester United náði í dag sex stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið lagði Arsenal 2-1 á Old Trafford í mögnuðum toppleik. Möguleikar Arsenal á titlinum eru hinsvegar að verða úr sögunni.

Manchester United 2 - 1 Arsenal

0-1 E. Adebayor ('48)

1-1 Cristiano Ronaldo ('53, víti)

2-1 O. Hargreaves ('72)

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleiknum í dag þrátt fyrir mikið fjör og marktækifæri. Það voru gestirnir í Arsenal sem brutu ísinn í þeim síðari þegar Emmanuel Adebayor skoraði vægast sagt vafasamt mark.

Hann fékk fyrirgjöf frá Robin van Persie og blakaði boltanum í netið með höndinni að hætti Diego Maradona.

Leikmenn United voru þó ekki af baki dottnir og markamaskínan Cristiano Ronaldo jafnaði leikinn með marki úr tvítekinni vítaspyrnu. Vítið var dæmt eftir að William Gallas hafði handleikið knöttinn í teignum og Portúgalinn sýndi sama öryggið og í allan vetur með því að skora úr síðari spyrnu sinni.

Það var svo enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves sem innsiglaði sigur United með vel tekinni aukaspyrnu - skrúfaði boltann yfir vegginn hjá Arsenal og í bláhornið vinstramegin án þess að frábær Jens Lehmann hreyfði sig.

Arsenal getur borið höfuðið nokkuð hátt frá Old Trafford eftir leikinn og kannski voru sóknarmenn liðsins klaufar að nýta færi sín ekki betur. Sama má ef til vill segja um heimamenn, en Jens Lehmann sá hvað eftir annað við þeim með góðri markvörslu.

Arsenal horfir nú fram á þriðja tímabil sitt í röð án titils, en United er í kjörstöðu til að verja titil sinn frá í fyrra. Liðið á þó erfiða leiki eftir á lokasprettinum, en liðið hefur verið á góðu skriði í allan vetur og hefur allt í höndum sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×