Innlent

Geitfjársetur og dýrasælgætisfyrirtæki fá styrki

MYND/Kristín Eva

Geitfjársetur, fyrirtæki sem framleiðir dýrasælgæti og annað sem sinnir fjölbreytilegri heimaþjónustu við aldraða, fatlaða og langveika eru meðal þeirra tíu fyrirtækja sem hlutu tveggja milljóna króna styrk frá fjármálaráðuneytinu í dag. Um var að ræða styrki til atvinnumála kvenna og var samtals úthlutað 50 milljónum króna til 56 verkefna. Verkefnin að þessu sinni voru afar fjölbreytt, svo sem þjónusta af ýmsu tagi, framleiðsla, hönnun og félagsleg verkefni.

Sem fyrr segir fengu tíu umsækjendur hæsta mögulega styrk, eða tvær milljónir króna. Þar á meðal er geitfjársetrið sem verður miðstöð geitfjárræktunar í landinu þar sem stunduð verður markviss geitfjárræktun, unnar verðar vörur úr afurðum geita og þær seldar á staðnum og í völdum verslunum. Verkefnið snýst enn fremur um að vernda íslenska geitfjárstofninn sem telur einungis 500 dýr. Að setrinu stendur Jóhanna B. Þorvaldsdóttir.

Enn fremur fékk fyrirtækið Dýrakotsnammi sambærilegan styrk. Það framleiðir gæða hunda- og kattanammi úr íslenskri lamba-, ungnauta- og ungkálfalifur. Varan er nýnæmi því ekki hefur lifur áður verið nýtt á þennan hátt. Hanna Þrúður Þórðardóttir er forsvarsmaður Dýrakotsnammis.

Þá hlutu Hanna Lára Steinson og Dögg Káradóttir styrk fyrir viðskiptahugmyndina Bjarmalund. Hún snýst um að bjóða upp á sveigjanlegar skammtíma- og hvíldarinnlagnir fyrir Alzheimerssjúklinga. Viðskiptaáætlun Bjarmalundar varð í þriðja sæti í samkeppni Innovit sem fór fram vorið 2008.

Aðalheiður Þóra Bragadóttir fékk einnig tveggja milljóna króna styrk fyrir fyrirtæki sem sinnir fjölbreytilegri heimaþjónustu við fatlaða, aldraða, langveika og aðra þá sem þurfa stuðning og aðstoð við að búa á eigin heimili. Þjónustan felur í sér aðstoð við atferli daglegs lífs og almenn verk, svo sem að fara út að versla eða stuðning við afþreyingu ýmiss konar og persónulega umhirðu.

Þá hlaut Hallfríður Ólafsdóttir, fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnnar, styrk til að koma metsölubók sinni um Maxímús Músíkús á framfæri erlendis í gegnum sérstakt félag sem þegar hefur verið stofnað. Ætlunin er að koma bæði bókinni og tónleikadagskránni á framfæri erlendis og fylgja því eftir með vöruframleiðslu tengdri sögupersónunni og klassískri tónlist. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að kynna klassíska tónlist fyrir börnum ásamt því að framleiða vörur tengdar efninu.

Þá hlaut Sóley Elíadóttir leikkona tveggja milljóna króna styrk fyrir fyrirtæki sitt Sóley, grös og heilsa sem framleiðir snyrti- og heilsuvörur úr villtum íslenskum jurtum. Þróa á íslenska barnavörulínu í snyrti- og heilsuvörum þar sem íslenskar jurtir og lífrænar olíur eru notaðar til framleiðslunnar. Þar er um að ræða barnatannkrem, barnasjampó, barnagræðikrem, barnaolíu, barnalíkamskrem og barnasápu svo eitthvað sé nefnt.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.