Fótbolti

Veigar: Spenntur fyrir frönsku deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Veigar Páll Gunnarsson á æfingu með íslenska landsliðinu.

Veigar Páll Gunnarsson segir að sér lítist vel á að franska úrvalsdeildarliðið Nancy hafi gert Stabæk tilboð í sig. Ómögulegt sé þó enn að segja hvort eitthvað komi úr því.

„Það er ekkert komið á hreint enn. Nancy er búið að gera Stabæk tilboð og félögin eru að ræða saman þessa stundina. En það vill oft gerast að þegar félag sýnir leikmönnum áhuga að ekkert verði úr því. Ég er því lítið að spá í þessu," sagði Veigar í samtali við Vísi í dag.

„En ég væri vissulega spenntur fyrir því að spila í Frakklandi. Deildin þar er mun betri en hér í Noregi. Ég hef líka áður sagt að ég hafi áhuga á að breyta til enda orðinn 28 ára gamall og kannski síðasti séns fyrir mig að komast eitthvað annað. En ef ekkert gerist er það líka allt í lagi. Mér líður afar vel í Noregi."

Veigar segist vita af því að Nancy hafi fylgst með sér undanfarið hálfa ár. Þar að auki á Veigar aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Stabæk sem gæti séð hag sinn í því að selja hann nú í stað þess að fá ekkert fyrir hann eftir næsta tímabil.

„Mér sýnist að forráðamenn Stabæk hafi ekki úr miklu að spila. Eftir 6-7 mánuði gæti ég þess vegna samið við hvaða lið sem er en þyrfti auðvitað að klára tímabilið í Noregi. Ég trúi því ekki öðru en að þeir vilji selja mig nú. Þeir vita líka vel að það er minn draumur að spila í betri deild og fyrir stærra félag."

Albert Guðmundsson lék með Nancy árið 1947 og segir Veigar það skemmtilega tilhugsun að feta í fótspor hans hjá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×