Enski boltinn

Torres tryggði Liverpool sigurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres fagnar marki sínu í dag.
Fernando Torres fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool vann 1-0 sigur á Manchester City í síðari viðureign dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Fernando Torres skoraði sigurmark Liverpool.

Rafael Benitez gerði fimm breytingar á liði Liverpool sem tapaði fyrir Chelsea í Meistaradeildinni í vikunni. Hinn ungi og efnilegi Emiliano Insua var í byrjunarliðinu sem og þeir Steve Finnan, Lucas, Sami Hyypia og Ryan Babel.

Manchester City hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum. Richard Dunne var á liðinu í nýjan leik í dag á kostnað Gelson Fernandes.

Leikurinn byrjaði heldur rólega en mesta athygli vakti að stuðningsmenn City sungu hástöfum til stuðnings Sven-Göran Eriksson. Það hefur ekki fengist staðfest en víst þykir að hann verði látinn fara í lok leiktíðarinnar.

Ryan Babel fékk fyrsta góða færi leiksins en hann skallaði yfir markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Dirk Kuyt.

Steven Gerrard átti síðan tvö lagleg skot að marki um miðan fyrri hálfleikinn en það fyrra fór fram hjá og Joe Hart varði það síðar glæsilega.

Síðari hálfleikur hófst með miklum látum en Steven Gerrard átti góða sendingu inn fyrir vörn City þar sem Fernando Torres var mættur en skot hans fór rétt svo fram hjá markinu.

Skömmu síðar fékk City vítaspyrnu en Elano átti gott skot í stöng úr henni.

En Torres lét ekki annað gott færi sér úr greipum renna en hann kom Liverpool yfir á 58. mínútu. Mistök í vörn City urðu til þess að hann fékk boltann rétt utan vítateigs, lék á Richard Dunne, og setti boltann í fjarhornið úr þröngri stöðu.

Fáeinum mínútu síðar átti Kuyt gott skot að marki sem Hart varði vel. Lucas fylgdi eftir með bakfallsspyrnu en aftur var Hart vel á verði.

Liverpool var ekki hætt en á 65. mínútu átti Kuyt skalla í slá eftir sendingu Sami Hyypia. Liverpool fékk horn og úr því fékk Kuyt annað gott skallafæri en beint á Hart í markinu.

Mínútu síðar var komið að Ryan Babel en hann fékk boltann á markteigslínunni þar sem hann stóð einn og óvaldaður en skot hans fór hátt yfir markið.

Leikurinn fjaraði út eftir þetta en City komst reyndar nálægt því að jafna þegar að varamaðurinn Xabi Alonso var nærri búinn að setja knöttinn í eigið net. Hann slapp þó með skrekkinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×