Enski boltinn

Erfiðara að vera landsliðsþjálfari en forsætisráðherra

NordicPhotos/GettyImages

Glenn Hoddle, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, öfundar ekki Fabio Capello af því starfi sem hann á fyrir höndum og þá sérstaklega vegna fjölmiðlafársins sem jafnan er í kring um liðið.

"Starf landsliðsþjálfara Englands er ómögulegt starf," sagði Hoddle í samtali við Times á Englandi. "Ég held að landsliðsþjálfari Englendinga vinni erfiðara starf en sjálfur forsætisráðherrann. Sérstaklega ef viðkomandi er Englendingur. Eina undantekningin á þessu væri hugsanlega ef forsætisráðherrann þyrfti að fara í stríð og bera ábyrgð á lífum fólks," sagði Hoddle.

"Þó þú sért forsætisráðherra, gengur fólk ekki upp að þér og fer að tala við þig um stjórnmál, en ef þú ert landsliðsþjálfari og stoppar til að taka bensín eða færð þér að borða með konunni - hafa allir skoðanir á því sem þú ert að gera og segja þér hvernig þú átt að gera það," sagði Hoddle, sem þekkir þetta af eigin raun.

Hann segir Capello geta hagnast á því að tala ekki fullkomna ensku enn sem komið er.

"Mér finnast laun landsliðsþjálfarans vera orðin heldur há, en hann á samt að vera á góðum launum af því menn verða fyrir svo miklu áreiti. Það eina sem Capello getur huggað sig við er að hann talar ekki ensku. Þegar ég fór til frakklands sem leikmaður kunni ég ekkert í málinu fyrsta hálfa árið, en það hlífði mér þó við því að lesa einhverja vitleysu um mig í blöðunum því ég skildi ekki málið. Þetta sama á við um Capello og ég myndi skora á hann að opna ekki blöðin nema hann sé að leita að einhverju sérstöku," sagði Hoddle. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×