Enski boltinn

Fulham stal stigum af Chelsea

Clint Dempsey fagnar að hætti hússins
Clint Dempsey fagnar að hætti hússins AFP

Chelsea varð á í messunni í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið varð að gera sér að góðu 2-2 jafntefli við Fulham á Craven Cottage.

Það var Clint Dempsey sem var hetja Fulham þegar hann skoraði jöfnunarmark liðsins skömmu fyrir leikslok, en fram að því leit út fyrir að tvö mörk Frank Lampard hefðu tryggt Chelsea öll stigin. Það var Dempsey sem kom Fulham yfir í leiknum, en jafnteflið þýðir að Chelsea er nú þremur stigum á eftir toppliði Liverpool.

William Gallas tryggði Arsenal gríðarlega mikilvæg þrjú stig þegar hann tryggði liðinu 1-0 sigur á Portsmouth með skallamarki á 81. mínútu eftir mistök David James markvarðar.

Tony Adams varð þar með að sætta sig við enn eitt tapið síðan hann tók við Portsmouth og sótti ekki gull í greipar læriföður síns Arsene Wenger í dag. Hermann Hreiðarsson kom ekki við sögu hjá Portsmouth og sat á bekknum.

West Brom krækti í dýrmæt þrjú stig þegar liðið fékk Tottenham í heimsókn og sigraði 2-0. Gestirnir virðast vera búnir að missa flugið sem þeir komust á eftir að Harry Redknapp tók við liðinu, en það hjálpaði reyndar ekki að liðið missti Beniot Assou-Ekotto af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik. Sigurinn lyfti West Brom af botni deildarinnar.

Everton heldur áfram á góðri siglingu þrátt fyrir framherjaleysið og í dag vann liðið 3-0 sigur á Sunderland í fyrsta leik Ricky Sbragia síðan hann var gerður að varanlegum stjóra liðsins. Mikel Arteta skoraði tvö mörk Everton og hinn ungi Dan Gosling skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.

West Ham lagði Stoke 2-1 þar sem mark í lokin tryggði sigur heimamanna, en Stoke lék með tíu menn í lokin eftir undarlega uppákomu. Ricardo Fuller var vikið af velli fyrir átök við liðsfélaga sinn.

Loks vann Wigan fimmta sigur sinn í sex leikjum þegar það lagði Bolton 1-0 á útivelli. Amr Zaki skoraði sigurmark Wigan úr vítaspyrnu. Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton.

Arsenal 1 - 0 Portsmouth

1-0 W. Gallas ('82)

Bolton 0 - 1 Wigan

0-1 A. Zaki ('44, víti)

Everton 3 - 0 Sunderland

1-0 M. Arteta ('10)

2-0 M. Arteta ('27)

3-0 D. Gosling ('83)

Fulham 2 - 2 Chelsea

1-0 C. Dempsey ('10)

1-1 F. Lampard ('50)

1-2 F. Lampard ('73)

2-2 C. Dempsey ('90)

West Brom 2 - 0 Tottenham

1-0 R. Bednar ('83)

2-0 C. Beattie ('90)

West Ham 2 - 1 Stoke

0-1 Abdoulaye Fayé ('5)

1-1 C. Cole ('51)

2-1 D. Tristán ('87)

Staðan í deildinni










Fleiri fréttir

Sjá meira


×