Innlent

Segir frumvarp um breytingar á eftirlaunalögum verða kynnt stjórnarandstöðu

MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir að frumvarp um breytingar á eftirlaunalögunum umdeildum verði að líkindum kynnt formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, formanns Framsóknarflokksins. Ingibjörg gaf hins vegar ekki upp hvernær slíkt frumvarp yrði lagt fram.

Valgerður gerði bæði ríkisstjórnina og eftirlaunamálin að umtalsefni í fyrirspurnartíma á Alþingi. Hún sagði framkoma Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar gangvart þjóðinni síðustu daga ekki boðlega. Það blasti við á hverjum degi að það væri mikill ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og fulltrúar Samfylkingarinnar á þingi ástunduðu gaspur. Það væri algjör nýjung í íslenskum stjórnvöldum.

Þá sagði Valgerður það gleðifrétt að stjórnarflokkarnir hefðu náð samstöðu um breytingar á eftirlaunalögum, en Vísir greindi frá því í gærkvöld. Sagði Valgerður að sér sýndist sem frumvarpið sem væri að fæðast væri í líkingu við það sem Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði lagt fram fyrir um tveimur árum en Ingibjörg Sólrún hefði hafnað þá.

Haldast ekki í Framsókn vegna skoðanaágreinings

Ingibjörg sagðist ekki átta sig á því hvaða spurningu væri beint til sín. Hún sagði hins vegar að hugmyndir sínar um breytingar á eftirlaunalögunum væru annars eðlis en Halldór hefði komið fram með á sínum sínum tíma. Hvað varðaði Samfylkinguna þá væri hún stór flokkur. Í honum væru margar vistarverur og ólíkar skoðanir. Benti hún hins vegar á að Framsóknarflokkurinn væri örflokkur en þar gætu menn ekki haldist við vegna skoðanaágreinings. Hægt væri að ræða hluti í Samfylkingunni án þess að menn stykkju frá borði unnvörpum.

Valgerður sagðist í framhaldinu greinilega hafa komið við kauninn á ráðherra og benti á að helmingur kjósenda Samfylkingarinnar styddi ekki ríkisstjórnina. Þá krafðist hún þess að utanríkisráðherra svaraði því hvort það væri að koma fram frumvarp um eftirlaunalög og hvort formenn stjórnarandstöðuflokkanna fengju upplýsingar um það hvernig það væri vaxið. Sagði hún enn fremur að ekki myndi standa á framsóknarmönnum að breyta lögunum.

Ingibjörg Sólrún sagði ánægjulegt að það stæði ekki á framsóknarmönnum að breyta lögunum og hún gæti fullvissað Valgerði um að ef að líkum léti yrði frumvarpið kynnt formönnum stjórnarandstöðuflokkanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×