Enski boltinn

Derby bætir í leikmannahópinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ruben Zadkovich á æfingu hjá Sydney FC.
Ruben Zadkovich á æfingu hjá Sydney FC. Nordic Photos / Getty Images

Derby hefur samið við Ástralann Ruben Zadkovich til næstu tveggja ára en hann verður reyndar ekki gjaldgengur með liðinu fyrr en á næsta tímabili.

Zadkovich hóf feril sinn með unglingaliði QPR og lék með Notts County í skamman tíma áður en hann hélt aftur til Ástralíu árið 2005. Hann lék síðast með Sydney FC en fór þaðan í síðasta mánuði. Hann færi því ekki leikheimild með Derby fyrr en félagaskiptaglugginn opnar á nýjan leik í sumar.

„Við vorum mjög hrifnir af því sem við sáum af Ruben á æfingum. Það voru önnur félög sem höfðu áhuga á honum og vildum við vera vissir um að við myndum ekki missa af honum," sagði Paul Jewell, stjóri Derby.

Honum stóð einnig til boða að ganga til liðs við Crystal Palace en hann valdi frekar að fara til Derby sem er þegar fallið úr ensku úrvalsdeildinni.

„Derby er rétta félagið fyrir mig. Liðið hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu en bæði ég og félagið eru að horfa til framtíðar. Ég er viss um að mér muni ganga vel á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×