Innlent

Segir gagnrýni Davíðs óréttláta og óskynsamlega

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, segir gagnrýni Davíðs Oddssonar á eftirlitið bæði óréttláta og óskynsamlega. Það hafi sinnt hlutverki sínu eins og lög kveði á um.

Jón segir ekki rétt að eftirlitið hafi ekki staðið sig í að hvetja bankana til að skera stærð sína niður eins og skilja megi á ræðu Davíðs. Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hafi bæði hlutverk og hafi unnið náið saman.

Aðspurður hvort Seðlabankinn hefði getað sett menn inn í bankana til þess að knýja þá á um að minnka efnahagsreikning sinn segir Jón að það hefði verið svo afdrifarík ákvörðun að viðskipti bankanna hefðu spillst. Benti hann á að það sem menn gætu sagt í luktum herbergjum væri ekki endilega heppilegt að segja á opinberum vettangi. Þá segir hann Fjármálaeftirlitið ekki hafa skellt skollaeyrum við viðvörunum Seðlabankans og segir bankann eiga einn fulltrúa í þriggja manna stjórn Fjármálaeftirlitsins.

Og frá því Jón tók við stjórnarformennsku í janúar segist hann ekki hafa heyrt neina slíka tillögu frá Seðlabankanum. Aðspurður telur hann gagnrýni Davíðs ósanngjarna og óskynsamlega. Nú riði á að endurheimta traust á efnahagskerfið og þetta væri ekki leiðin til þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×