Innlent

Sýslumaður átti að auglýsa starf deildarstjóra

Sýslumanninum á Blönduósi var óheimilt að færa lögreglumann í starf deildarstjóra hjá innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar án þess að auglýsa starfið. Að þessu kemst umboðsmaður Alþingis í nýju áliti sínu.

Innheimtumiðstöðin var opnuð á Blönduósi síðla árs 2006 og var lögreglumaður færður úr starfi og í starf deildarstjóra hjá miðstöðinni. Þetta sætti annar maður sig ekki við og leitaði álits á gjörningnum hjá umboðsmanni Alþingis. Benti hann á að starfið hefði ekki verið auglýst og honum hefði verið mismunað þar sem hann hefði ekki átt þess kost að sækja um starfið.

Eftir að hafa skoðað málið og skýringar sýslumanns komst umboðsmaður að því að ákveðið hefði verið að stofna til nýs starfs hjá embættinu sem skylt væri að auglýsa. Því hefði verið óheimilt að ráða í starf deildarstjóra hjá innheimtumiðstöðinni án undangenginnar auglýsingar þar sem öllum sem áhuga hefðu á starfinu væri gefinn kostur á að leggja fram umsókn.

„Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til sýslumannsins á Blönduósi að hann tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við ráðningu í störf á vegum embættisins og þá jafnframt við ráðstöfun á starfi deildarstjóra innheimtumiðstöðvarinnar við lok gildandi ráðningarsamnings þess sem gegndi því starfi," segir á vef umboðsmanns Alþingis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×