Fótbolti

Við höfum marga kosti fram yfir þær líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, er til í slaginn á móti Frökkum í leiknum mikilvæga á morgun.

"Þær eru skráðar ofar en við á þessum FIFA-lista og eru kannski teknískari en við. Ég held að við höfum marga kosti fram yfir þær líka. Við erum líkamlega sterkari og við erum með skipulagðara lið. Þetta verður brjálæðislega erfiður leikur og það vitum við," segir Katrín sem segir að það gæti komið franska liðinu á óvart að íslenska liðið ætli ekki að breyta miklu frá því í síðustu leikjum.

"Við munum halda áfram okkar leik og það mun kannski koma þeim á óvart að við skulum halda áfram að spila okkar leikstíl þótt við séum að fara að mæta liði sem þær vilja meina að sé betra en við," segir Katrín.

Katrín er í nokkurri sérstæðri stöðu í íslenska liðinu því hún spilar vanalega sem miðjumaður hjá Val en er síðan komin í stöðu miðvarðar í íslensku vörninni. Katrín segist vera orðin vön því að skipta á milli.

"Mér finnst þetta ekki vera mikið mál núna því ég er búin að gera þetta í svo mörg ár. Ég var oft að spila á miðjunni með félagsliði og var svo bakvörður með landsliðinu. Ég hef gert þetta lengi. Ég hef hingað til verið að spila við hliðina á Gunnu (Guðrúnu Sóleyju Gunnarsdóttur) sem er frábær miðvörður og það hefur gengið vel," segir Katrín og það er ljóst að íslenska vörnin hefur verið að spila frábærlega í ár enda aðeins búin að fá á sig 2 mörk í 9 leikjum.

"Vörnin er búin að spila mjög vel og þá er ég ekki bara að tala um þessar fjórar öftustu. Varnarleikur liðsins er búinn að vera frábær og við verðum að halda því áfram því þannig höfum við unnið þessa leiki," segir Katrín og hún gerir sér vel grein fyrir framlagi miðjumannanna því hún er oftast í því hlutverki með Val.

"Þær á miðjunni hafa verið að standa sig frábærlega og þær eru að gera þetta auðveldara fyrir okkur fyrir aftan. Eitt það versta sem gerist þegar maður er miðjumaður er þegar teygist á liðinu. Það er hræðilegt fyrir miðjumennina að þurfa að vera að hlaupa á þvílíku svæði og ég hugsa um oft um það og við reynum því að halda liðinu í einum pakka," segir Katrín og nú er bara að vona að Katrín og félagar haldi áfram uppteknum hætti í varnarleiknum og nái að stoppa frönsku sóknina á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×