Innlent

Erlent eignarhald kemur til greina

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra segir það koma til greina að erlent eignahald verði að hluta á íslensku viðskiptabönkunum í framtíðinni. Honum líst hins vegar illa á hugmyndir um sameiningu ríkisbankanna. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu um bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju á Alþingi í dag. Þar greindi Björgvin einnig frá því að til stæði að gera heildarendurskoðun á lögum um fjármálastarfsemi landsins.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, hóf umræðuna og spurði Björgvin um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi bankamál til framtíðar á Íslandi. Hún sagði meðal annars að efnahagsreikningar viðskiptabankanna þriggja vektu upp efasemdir um það hvort þeir geti sinnt efnahagslegri skyldu sinni. Þá varaði Álheiður eindregið við þeirri stefnu að ætla að einkavæða bankana að nýju og benti hún á Svía og Norðmenn sem hefðu í svipuðum aðstæðum haldið eftir hlut í bönkunum þar í landi eftir þrengingarnar sem þau lönd gengu í gegnum fyrir nokkrum árum.

Björgvin sagði rétt að skoða aðkomu erlendra aðila að bönkunum af fullri alvöru. Á því máli væru kostir og gallar og áréttari Björgvin að ekkert væri ákveðið í þeim efnum. Hann sagði það sína skoðun að einboðið væri að ríkið héldi eftir einhverjum hlut í einhverjum bankanum. „Auðvitað verður að standa allt öðruvísi að einhverskonar einkavæðingu bankanna heldur en gert var síðast," sagði Björgvin. Í umræðunni kom einnig spurning til ráðherrans hvort ekki kæmi til greina að sameina bankana þrjá enda væru þeir nú allir í eigu ríkisins. Björgvin svaraði því til að samkeppnislög hamli því og að hann myndi ekki stuðla að slíkum samruna.

Þá lýsti Björgvin því yfir að til standi að endurskoða lög um fjármálastarfsemi í landinu frá grunni og fullvissaði hann stjórnarandstöðuna um að hún fengi að koma að því starfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×