Innlent

Afli úr íslenskum skipum verði seldur á Íslandi

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda vilja að allur afli úr íslenskum skipum verði seldur á Íslandi að öðrum kosti verði hann bundinn 10% útflutningsálagi.

,,Sjávarútvegsráðherra ákvað að fella niður álag á óvigtaðan óunninn fisk þann 1.september 2007, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda bentu á að það myndi leiða til stórfelldrar aukningar útflutnings óunnins fisks, með hörmulegum afleiðingum fyrir íslenskt fiskvinnslufólk. Sá ótti er því miður staðfestur af Fiskistofu en aukningin er 35% milli ára í ýsu á fyrstu 10 mánuðum ársins og 16% ef allur afli er skoðaður," segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda 15. nóvember á Grand hótel.

Samtökin hvetja Einar K. Guðfinsson, sjávarútvegsráðherra, til að stöðva þessa þróun strax, enda óþolandi að íslenskar fiskvinnslur hafi ekki aðgang að eða tækifæri til að bjóða í þetta íslenska hráefni. ,,Það hlýtur að vera eðlileg krafa íslensks fiskvinnslufólks að fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum sé allur vigtaður í löndunarhöfn í samræmi við íslensk lög um umgengni um nytjastofna sjávar og ráðherra víki frá þessari sérstæðu undanþágu, sem virðist hafa þau einu augljósu áhrif að skapa ósamræmi í vigtun landaðs afla og taka vinnuna af íslensku fiskverkafólki."

Fyrir Alþingi liggja drög að frumvarpi sem kveða á um að allur óvigtaður afli fari á uppboðsmarkað. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda gerir kröfu að rammi uppboðsmarkaðarins verði þannig úr garði gerður að íslensk fiskvinnsla hafi raunverulegt aðgengi að þessum afla og að allur sá afli sem ekki selst á uppboðsmarkaðnum verði bundinn 10% útflutningsálagi til að mæta þeirri rýrnun sem verður frá löndun að vigtun í erlendri höfn.

Jón Steinn Elíasson var kjörinn formaður samtakanna á aðalfundinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×