Íslenski boltinn

Ólafur: Svaf betur í nótt en eftir leikinn gegn Þrótti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.

Ólafur Kristjánsson þjálfari Blika sagði í samtali við Vísi í dag að hann hefur oft sofið verr en hann gerði í nótt þrátt fyrir 6-3 tap sinna manna fyrir Grindavík á heimavelli í gær.

Breiðablik gerði markalaust jafntefli við Þrótt í annarri umferð. „Eftir þann leik sofnaði ég klukkan fimm. Í gærkvöldi var ég sofnaður um tvöleytið. Ég svaf því betur í nótt þó svo að afhroðið í gær hafi verið verra en í Þróttaraleiknum," sagði Ólafur í léttum dúr.

„Eftir leikinn gegn Þrótti var ég mikið að greina leikinn og átta mig á því hvað nákvæmlega fór úrskeðis. En í gær var einfaldlega um sameiginlegt gjaldþrot allra leikmanna að ræða."

„Þegar við fengum á okkur fyrsta markið á fyrstu sekúndum leiksins hugsaði ég með mér að svona lagað á það til að gerast. Við jöfnum svo en þá skora þeir 2-1, 3-1, 4-1 og svo 5-1. Þá fallast manni hendur. Ég viðurkenni fúslega að það var mjög erfitt að taka á þeirri stöðu enda áttu allir slæman leik. Meira að segja Arnar Grétarsson átti slæman dag og ekki hefur hann brugðist okkur hingað til."

Eins og fram kemur í fréttinni hér að neðan hafa minnst átta mörk verið skoruð í þremur leikjum til þessa á tímabilinu. Ólafur hefur þó ekki áhyggjur af slökum varnarleik íslensku liðanna og benti til á mynda á eigið lið í því sambandi.

„Fyrir leikinn í gær vorum við búnir að fá okkur tvö mörk, bæði eftir föst leikatriði. Það var því aldrei búið að spila okkur út. Svo í þessum leik í gær komu fimm af mörkunum sex úr opnum leik. Við vorum sundurspilaðir sem var á skjön við hina leikina okkar."

„Ég veit ekki hvort það getur talist jákvætt en þetta segir mér þó á hverju ég þarf að taka. En svo getur maður heldur ekki vitað hvort þetta eru veikleikar hjá liðinu eða bara andlegt hrun leikmanna."

Blikar munu æfa saman í dag en næsti leikur liðsins er gegn Fjölni á útivelli á sunnudaginn kemur. Ólafur viðurkennir að það sé erfitt að koma sínum liði aftur á rétta braut eftir slíka útreið sem það fékk í gær.

„Þetta er mjög viðkvæm staða. Við sátum í 40 mínútur inn í klefa eftir leikinn í gær og þá fór ekki á milli mála hvað mér fannst um frammistöðu leikmanna. En ég hef yfirleitt þann háttin á að eftir fyrstu æfingu eftir leik lokum við á það sem liðið er og horfum fram á veginn. Leikmenn sýndu mikið agaleysi í fyrri hálfleik í gær og ég mun hamra á því að fá agann aftur í liðið. Menn þurfa að sinna sínum hlutverkum."

„En eftir svona leik þarf líka að efla sjálfstraustið á nýjan leik og mun ég reyna að sinna því líka. En það er alveg ljóst að það verður engin miskun."


Tengdar fréttir

Flest mörk í einum leik í sex ár

Níu mörk voru skoruð í leik Breiðabliks og Grindavíkur í gær en ekki hafa verið skoruð fleiri mörk í leik í efstu deild hér á landi undanfarin sex ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×