Íslenski boltinn

Flest mörk í einum leik í sex ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomasz Stolpa skorar hér þriðja mark Grindavíkur í leiknum í gær.
Tomasz Stolpa skorar hér þriðja mark Grindavíkur í leiknum í gær.

Níu mörk voru skoruð í leik Breiðabliks og Grindavíkur í gær en ekki hafa verið skoruð fleiri mörk í leik í efstu deild hér á landi undanfarin sex ár.

Grindavík vann ótrúlegan 6-3 sigur í gær eftir að hafa komist 5-1 yfir strax í fyrri hálfleik og það á útivelli.

Síðast þegar það kom níu marka leikur í efstu deild karla var það viðureign Fram og FH í næstsíðustu umferðinni sumarið 2002. Bæði lið voru í fallhættu en náðu bæði að bjarga sér frá falli fyrir rest.

Þorbjörn Atli Sveinsson kom Fram þá yfir strax eftir 53 sekúndur í leiknum en Grindavík komst í gær yfir með marki Tomasz Stolpa eftir einungis nítján sekúndur.

FH-ingar bitu strax frá sér og komust í 3-1 forystu en Fram gafst ekki upp og vann á endanum 5-4 sigur. Liðið bjargaði sér á markatölu þetta árið og var því sigurinn afar mikilvægur.

Það hefur verið óvenju mikið skorað á Íslandsmótinu í ár en leikurinn í gær var sá þriðji á mótinu þar sem skoruð eru að minnsta kosti átta mörk. Keflavík vann Val, 5-3, í fyrstu umferðinni og þá gerðu Þróttur og FH 4-4 jafntefli í þriðju umferð.

Það er talsvert meira en hefur viðgengist undanfarin ár. Í fyrra var markamesti leikurinn viðureign Breiðabliks og FH sem lauk með 4-3 sigri Blika. Árið 2006 var skorað minnst sjö mörk í aðeins einum leik og hið sama má segja um 2005.

Markamestu leikirnir frá 2002:

2008:

Keflavík - Valur 5-3

Þróttur - FH 4-4

Breiðablik - Grindavík 3-6

2007:

Breiðablik - FH 4-3

2006:

Keflavík - ÍBV 6-2

2005:

FH - Grindavík 8-0

2004:

Keflavík - ÍBV 2-5

Fram - Keflavík 1-6

Keflavík - Grindavík 3-4

2003:

FH - KR 7-0

Fylkir - Valur 6-2

2002:

Þór - FH 4-4

FH - Þór 5-2

ÍA - Keflavík 5-2

Fram - FH 5-4


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×