Fótbolti

Tékkland ekki óskamótherjinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Frakklandi um liðna helgi.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Frakklandi um liðna helgi. Mynd/Stefán

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari segir að möguleikar íslenska liðsins til að komast í úrslitakeppni EM 2009 á næsta ári séu ágætir.

Riðlakeppninni lauk í kvöld og ljóst varð að Ísland mun mæta Tékklandi, Skotlandi eða Írlandi í umspili um laust sæti á EM í Finnlandi eins og útskýrt er í greininni hér að neðan.

„Munurinn nú og á undanförnum keppnum er að við eigum að fá veikan andstæðing nú þar sem við náðum svo góðum árangri í riðlakeppninni," sagði Sigurður Ragnar. „Skotland og Írland eru vissulega lægra skrifuð en við en Tékkar eru með mjög svipað lið og við."

Hann minnti á að fyrir tveimur árum síðan tapaði Ísland tvívegis fyrir Tékkum í undankeppni HM 2007, 1-0 ytra og 4-2 á heimavelli.

Ísland vann 4-1 sigur á Írum á þessu ári og gerði 1-1 jafntefli við þá á Algarve Cup á síðasta ári.

„Írar eru með nokkra sterka leikmenn og nokkra sem leika með Arsenal í Englandi. Okkur hefur svo gengið þokkalega með Skotana en við unnum þá síðast árið 2005."

„En það er auðvitað töluverður munur á að mæta þessum þjóðum frekar en hinum sem eru með í umspilinu því þær eru talsvert sterkari. Vonandi að þessi góði árangur okkar í riðlakeppninni skili okkur áfram í aðalmótið."

Hann segir ljóst að Tékkar eru ekki óskamótherjinn í umspilinu. „Við munum bara taka á því sem kemur. Við höfum bætt okkur mikið á síðustu tveimur árum og þær eflaust líka. Hin liðin eru líka sterkari og getur því allt gerst. Þetta er jú nánast eins og bikarkeppni."

Fyrri leikurinn fer fram ytra en sá síðari hér heima í lok mánaðarins. Hann segir að KSÍ muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að leikurinn fari fram á Laugardalsvelli.

„Það mun fara eftir veðrinu. Annars yrði sennilega leikið í Kórnum eða Egilshöll. Auðvitað vonast ég innilega til þess að það verði spila á Laugardalsvellinum enda verður mikill áhugi fyrir leiknum og margir sem vilja koma. Ég er bjartsýnn á að það takist."






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×