Erlent

Bretar skoða stöðuna kæmi til fuglaflensu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bretar minnast um þessar mundir spænsku veikinnar árið 1918 og spyrja sig hvernig þeir væru í stakk búnir yrði þjóðin fyrir svipuðu áfalli nú.

Í þessari viku eru 90 ár liðin síðan spænska veikin barst um Bretland árið 1918. Um var að ræða veiruna H1N1, inflúensu af A-stofni og lýstu sjúkdómseinkennin sér að jafnaði sem mikil blæðing upp úr lungum vegna heiftarlegrar lungnabólgu og streymdi blóð úr vitum hinna sýktu. Menn létust oft innan tveggja daga frá sýkingu. Öll meðferð var þýðingarlaus segir viðmælandi The Telegraph og lýsir því hvernig fólk hrundi niður á heimilum sínum, vinnustöðum og á götum úti.

Spænska veikin er talin hafa tekið 228.000 mannslíf í Bretlandi. Nú líta Bretar til fuglaflensuveirunnar H5N1 og gera ráð fyrir að á 15 vikum gæti fjórðungur Breta sýkst af veirunni brytist hún út í landinu. Svörtustu spár gera ráð fyrir allt að 450.000 dauðsföllum.

Breskur prófessor hefur sett fram þá hugmynd að komið verði á fót eftirlitskerfi þannig að hver og einn finni sér að minnsta kosti einn aðila til að annast komi til fuglaflensusmits. Aðrir vilja að fólk verði skyldað til að bera einhvers konar þétta grisju fyrir vit sín þegar það hóstar eða hnerrar. Sitt sýnist hverjum en engin samfelld neyðaráætlun fyrir allt landið hefur litið dagsins ljós enn sem komið er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×